Innlent

Engar vísbendingar um undanþágur til hergagnaflutninga með borgaralegum flugförum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ráðuneyti hans stóð að könnuninni um undanþágur til hergagnaflutninga.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ráðuneyti hans stóð að könnuninni um undanþágur til hergagnaflutninga. vísir/valli
Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið hefur lokið könnun sinni á veitingu undanþága vegna flutninga á hergögnum með borgaralegum loftförum á árunum 2008-2017.

Samkvæmt helstu niðurstöðum skýrslunnar eru engar vísbendingar um að íslensk stjórnvöld hafi veitt undanþágur til flutninga á hergögnum sem falla undir jarðsprengju- eða klasasprengjusamninga Sameinuðu þjóðanna. Gildir þetta bæði um flutninga um íslenskt yfirráðasvæði og um flutninga íslenskra flugrekenda.

Þá hafa engar undanþágur verið veittar vegna flutninga á hergögnum til ríkja eða aðila sem íslensk stjórnvöld hafa framfylgt þvingunaraðgerðum gegn. Undanþágur hafa heldur ekki verið veittar í andstöðu við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda samkvæmt Vopnasölusáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Könnunin var gerð vegna fjölmiðlaumfjöllunar um vopnaflutning íslenska flugfélagsins Air Atlanta. 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti áfangaskýrslu vegna sömu könnunar í apríl síðastliðnum. Annars vegar var um að ræða undanþágur til handa flugrekendum, hvar sem þeir eru skráðir í heiminum, vegna flutninga um íslenskt yfirráðasvæði og hins vegar undanþágur sem veittar hafa verið vegna flutninga íslenskra flugrekenda erlendis.

Greiningin náði ekki til viðkomu eða yfirflugs svokallaðra ríkisfara en heimildir til handa slíkum loftförum hafa verið veittar af utanríkisráðuneytinu. Könnunin afmarkaðist því við flutninga með borgaralegum loftförum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×