Erlent

Heitir því að finna uppljóstrarana í Hvíta húsinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/AFP
Donald Trump forseti Bandaríkjanna segist ætla að komast að því hverjir það eru sem hafa verið að leka upplýsingum úr herbúðum Hvíta hússins í „falsfréttamiðla“. Trump greindi frá þessum fyrirætlunum sínum á Twitter í kvöld.

„Þessir svokölluðu lekar sem koma úr Hvíta húsinu eru gríðarlegar ýkjur sem falsfréttamiðlar birta til að láta okkur líta eins illa út og mögulegt er,“ skrifaði Trump á Twitter-reikningi sínum í kvöld.

„Að því sögðu eru uppljóstrarar svikarar og gungur og við munum komast að því hverjir þeir eru!“



Líklegt er að Trump sé þar að vísa sérstaklega til máls sem kom upp í síðustu viku. Bandaríska dagblaðið Washington Post greindi frá því að Kelly Sadler, sérstakur aðstoðarmaður á samskiptasviði Hvíta hússins, hefði gert lítið úr John McCain, öldungardeildarþingmanni Repúblikanaflokksins, á lokuðum fundi í Hvíta húsinu á fimmtudag.

Sadler á að hafa sagt að McCain væri „hvort sem er að deyja“ og því skipti andstaða hans við tilnefningu Donalds Trump Bandaríkjaforseta til forstjóra leyniþjónustunnar CIA ekki máli.

McCain, sem er 81 árs og auk þess að jafna sig á uppskurði vegna heilaæxlis, hefur lýst yfir miklum efasemdum um tilnefningu Ginu Haspel sem næsta forstjóra CIA.

Hvíta húsið þrætti ekki fyrir orð Sadler þegar Washington Post leitaði viðbragða í liðinni viku. Talsmaður þess sagði að Hvíta húsið virti þjónustu McCain fyrir þjóð sína og að það bæði fyrir honum og fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×