Enski boltinn

Gylfi fær nýjan stjóra fyrir næstu leiktíð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stóri Sam er hættur á Goodison Park.
Stóri Sam er hættur á Goodison Park. Vísir/Getty
Sam Allardyce er hættur sem knattspyrnustjóri Everton en enska félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni í dag.

Miðað við hvernig yfirlýsingin er orðuð má reyndar segja að Allardyce hafi verið rekinn því í henni segir að Everton hafi tekið ákvörðun um að ráða nýjan stjóra í sumar sem hluta af framtíðaráformum félagsins.

Allardyce tók við þegar að Ronald Koeman var rekinn snemma á síðustu leiktíð eftir hræðilega byrjun en þessi þrautreyndi stjóri stýrði liðinu úr fallbaráttu og upp í áttunda sæti deildarinnar.

Stóri Sam var aldrei vinsæll hjá stuðningsmönnum félagsins sem voru ósáttir við fótboltann sem liðið spilaði en hann gerði það sem þurfti og hélt liðinu í úrvalsdeildinni og rúmlega það.

Það er því ljóst að Gylfi Þór Sigurðsson verður með nýjan stjóra í brúnni þegar að enska úrvalsdeildin hefst aftur í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×