Innlent

Hvassviðrið um hvítasunnuna getur hæglega feykt trampólínum langar leiðir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hún er ekki kræsileg vindaspáin fyrir hádegið á laugardag fyrir sunnanvert, vestanvert og austanvert landið.
Hún er ekki kræsileg vindaspáin fyrir hádegið á laugardag fyrir sunnanvert, vestanvert og austanvert landið. veðurstofa íslands
Suðaustan hvassviðrið sem Veðurstofa Íslands spáir um hvítasunnuhelgina getur jafnvel orðið að stormi að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings. Vindstyrkurinn geti hæglega feykt trampólínum langar leiðir, svo dæmi sé tekið, en með vindinum fylgir einnig talsverð rigning.

Svona veður er óvenjulegt á þessu árstíma að því er segir á vef Veðurstofunnar en útlit er fyrir mesta hvassviðrið á laugardag. Þá verður hvassast suðvestanlands en á norðanverðu landinu verður vindurinn aðeins skárri og ekki jafnmikil úrkoma.

Lægðin er þó ekki úr sögunni á sunnudag þar sem hún tekur sér stöðu skammt vestur af landinu og viðheldur stífum vindi með vætu allan þann dag ef spárnar ganga eftir.



Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga: 

Vaxandi suðaustanátt, 13-20 m/s síðdegis, talsverð rigning og snarpar hviður við fjöll. Heldur hægari og þurrt fram á kvöld á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðaustan til á landinu. Snýst í hægari suðvestanátt vestanlands í kvöld og dregur úr úrkomu. 

Suðvestan 5-13 á morgun og skúrir eða slydduél vestan til, en léttir til á austanverðu landinu. Hiti 3 til 10 stig, mildast austast.

Á föstudag:

Suðvestan 5-13 m/s og dálitlir skúrir eða slydduél vestan til, en léttir til á austanverðu landinu. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast austanlands. 

Á laugardag:

Suðaustan 15-23, hvassast suðvestanlands. Víða rigning, talsverð eða mikil úrkoma á sunnanverðu landinu. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á sunnudag (hvítasunnudagur):

Sunnan- og suðvestanátt, víða 13-18 m/s. Rigning og skúrir, en þurrt norðaustan til á landinu. Hiti 3 til 10 stig, mildast á Norðausturlandi. 

Á mánudag (annar í hvítasunnu):

Sunnan 8-13 með skúrum eða rigningu, en áfram þurrt norðaustan til. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag:

Útlit fyrir suðaustanátt með rigningu sunnan- og vestanlands, en þurrt fyrir norðan og austan. Hiti 6 til 12 stig, hlýjast norðan til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×