Enski boltinn

Merson byrjaði að nota kókaín á bar með stuðningsmönnum Arsenal

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Merson tekur hér drykkjufagnið sitt fræga.
Merson tekur hér drykkjufagnið sitt fræga. vísir/getty
Arsenal-goðsögnin Paul Merson hefur opnað sig varðandi fíknir sínar en hann drakk, dópaði og var ofsóknaróður veðmálafíkill er verst lét.

Merson hefur náð góðri stjórn á sínu lífi í dag og starfar sem sjónvarpsmaður hjá Sky Sports.

„Ég var í hræðilegum vítahring. Ég veðjaði svo mikið að ég byrjaði að drekka og morgnarnir urðu svo hræðilegir,“ sagði Merson sem var orðinn ofsóknaróður.

„Ég bjó tíu mínútum frá æfingasvæði Arsenal en það tók mig klukkutíma að komast á æfingu. Ef það var bíll fyrir aftan mig í 30 sekúndur þá stöðvaði ég bílinn því ég hélt að það væri einhver að koma til þess að drepa mig.“

Drykkjan leiddi til eiturlyfjaneyslu og hún hófst á sérstökum stað.

„Ég fór til þess að hitta vin minn á bar. Það var rangur staður því hann var fullur af stuðningsmönnum Arsenal sem allir voru að nota eiturlyf. Þeir spurðu hvort ég vildi en ég afþakkaði. Þetta var ekkert fyrir mig,“ sagði Merson.

„Ég fór heim en ég vissi strax að ég myndi fara aftur á þennan bar um næstu helgi. Þetta var furðulegasta tilfinning sem ég hef fundið fyrir. Að vita í heila viku að ég myndi fara aftur. Ég spilaði við Everton á laugardegi og skoraði laglegt mark. Ég var hátt uppi eftir leikinn og hugsaði að ég ætlaði beint á þennan bar og það gerði ég.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×