Enski boltinn

Conte: Ég er raðsigurvegari

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Conte með bikarinn í gær
Conte með bikarinn í gær vísir/getty
Mikið hefur verið rætt um framtíð Antonio Conte og hvort hann muni halda áfram starfi sínu sem knattspyrnustjóri Chelsea á næsta tímabili. Conte tryggði Chelsea bikarmeistaratitilinn með sigri á Manchester United í úrslitaleiknum í gær.

Eftir að hafa unnið Englandsmeistaratitilinn síðasta vor náði Chelsea ekki sæti í Meistaradeild Evrópu og endaði í fimmta sæti deildarinnar nýliðinn vetur. Mikil vonbrigði á Stamford Bridge og talað um að dagar Conte væru taldir sama hvort hann næði í bikarmeistaratitilinn eða ekki.

„Ég vissi að þetta yrði erfitt tímabil en við enduðum í fimmta sæti og unnum bikarinn,“ sagði Conte eftir úrslitaleikinn í gær.

„Að missa af sæti í Meistaradeildinni er ekki gott fyrir félag eins og Chelsea. Við þurfum að vera heiðarlegir með það, en á sama tíma þá þarf fólk að vita hver staðan er í raun og veru: að þessir leikmenn gerðu sitt besta.“

„Að klára tímabilið með titli sýnir skuldbindinguna og löngunina í að vilja enda tímabilið á góðu nótunum. Þrátt fyrir erfitt tímabil sýndi ég að ég er raðsigurvegari.“

Conte var inntur eftir svörum varðandi framtíð sína en gaf lítið uppi.

„Ég er samningsbundinn og ég held minni skuldbindingu til félagsins sama hverjir orðrómarnir eru. Ef félagið vill halda áfram samstarfi þá þekkja þeir mig orðið eftir tvö ár. Ég breytist ekki,“ sagði Antonio Conte.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×