Enski boltinn

Guardiola: Nú horfi ég bara á metin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guardiola getur leyft sér að fagna
Guardiola getur leyft sér að fagna vísir/afp
Manchester City er aðeins sex stigum frá því að bæta stigametið í ensku úrvalsdeildinn eftir stórsigur á Swansea í kvöld. Pep Guardiola segir að nú horfi hann bara á að bæta met.

Chelsea náði 95 stigum í deildinni tímabilið 2004-05. City er með 90 stig eftir 34 leiki af 38 og miðað við frammistöðu þeirra í dag ætti ekki að þvælast fyrir þeim að taka tvo sigra og slá þetta met.

„Við erum búnir að vinna deildina, núna snýst þetta um metin,“ sagði Guardiola eftir leikinn. „Þú ert aldrei í pásu í fótboltanum, það þarf að halda áfram að bæta sig.“

„Ef við værum að hugsa „allt í góðu, við erum meistarar nú þegar,“ þá værum við búnir að vera. Ef við höldum áfram að bæta okkur þá erum við í fínum málum.“

City getur einnig náð í þrjú önnur met, flesta sigra á einu tímabili, flest mörk og stærsta bil á milli 1. og 2. sætis.

Chelsea náði 30 sigrum veturinn 2016-17. City er með 29. Því getur Guardiola ekki náð í stigametið nema að minnsta kosti jafna það met. Chelsea á einnig metið yfir flest mörk skoruð, það settu þeir vorið 2010 þegar liðið skoraði 103 mörk á einu tímabili. Sóknarlið City er komið með 98 mörk.

Nágrannarnir í Manchester United eiga metið yfir stærsta bilið í deildinni, þeir unnu deildina með 18 stigum árið 2000. United er einmitt liðið sem situr í öðru sæti í deildinni, 16 stigum á eftir City. Þeir bláklæddu þurfa að treysta á að rauðklæddu grannar sínir missi af einhverjum stigum til þess að ná þessu meti, en það munar aðeins þremur stigum svo aldrei að vita nema Pep nái að bæta því í safnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×