Umfjöllun og viðtöl: Valur - Fram 25-29 │Framarar í bílstjórasætið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Baráttan í algleymingi.
Baráttan í algleymingi. vísir/vilhelm
Framarar unnu Valsmenn, 29-25, í úrslitaeinvígi Olís-deildar kvenna í Valsheimilinu í kvöld og leiða því einvígið 2-1. Þær geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fjórða leiknum í Safamýri á fimmtudaginn.

Framarar byrjuðu leikinn mun betur og komust strax í 9-3. Þessi byrjun lagði í raun grunninn að þessum sigri og náðu Valsarar aldrei að jafna metin eftir það. Steinunn Björnsdóttir var frábær í liði Fram í kvöld og skoraði hún sjö mörk úr sjö skotum.

Einnig var hún frábær í vörninni. Í liði Vals var Díana Dögg Magnúsdóttir frábær og skoraði hún níu mörk í kvöld.

Af hverju vann Fram?

Þær voru einfaldlega grimmari frá fyrstu mínútu. Það sást í byrjun leiks þegar Fram komst í 9-3 og slógu Valsara  alveg út af laginu. Framarar spiluðu algjörlega sinn bolta og keyrði hraðan upp úr öllu valdi. Valsmenn réðu einfaldlega ekki við leikinn og því fór sem fór.

Hverjir stóðu upp úr?

Steinunn Björnsdóttir var stórbrotin í liði Fram og það báðu megin á vellinum. Díana Dögg var einnig frábær í liði Vals. En heilt yfir var Framliðið mun betra og fleiri leikmenn að gera góða hluti.

Hvað gekk illa?

Valsarar náðu einhvern veginn ekki alveg að finna taktinn í kvöld. Byrjun Framara virtist slá leikmenn liðsins örlítið út af laginu. Framarar skoruðu einnig nokkrum sinnum í autt markið og verður liðið að passa að missa ekki boltann frá sér svona auðveldlega.    

Hvað er framundan?

Leikur fjögur fer fram í Safamýrinni á fimmtudaginn og þá getur Fram tryggt sér titilinn.

Kristín: Af því að ég er sterkari en hún þá fæ ég tvær mínútur„Við töpum þessum leik bara á fyrstu tíu mínútum leiksins ,“ segir  Kristín Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, eftir tapið.

„Við spilum ágætis leik í seinni hálfleik. Sóknarleikurinn kannski ekki upp á tíu síðustu fimm en við gerðum atlögu að þessu undir lokin. Í seinni hálfleik spiluðum við hörku vörn og vorum svolítið að berja á þeim. Það er það sem við viljum.“

Kristín var ekkert sérstaklega sátt við dómara leiksins í kvöld.

„Þeir stjórna þessum leik bara í fyrri hálfleik bara með einhverjum ruðningum og skrefum. Ég vona innilega að þeir horfi á þennan leik aftur. Það er ekki hægt að vera dæma ruðning í hverri sókn. Hvort sem það er Fram eða Valur. Ég er ekki að segja að það sé bara á okkur. Ef það er ruðningur, þá verður það að vera alvöru ruðningur. Við erum aðeins og mikið að líta upp til körfuboltans ef þetta er svona.“

Kristín segir að Framarar hafi oft á tíðum látið sitt detta í leiknum í kvöld.

„Ég fæ tvær mínútur þegar Steinunn kemur á blússinu á mig. Þetta var ruðningur en af því að ég er sterkari en hún, þá flýgur hún í gólfið og ég fæ tvær mínútur. Það er alltaf eins og maður sé að ýta henni. Við fáum bara ekkert að berjast og mér fannst dómararnir ekki nægilega góðir í kvöld. Við töpum ekki útaf þeim samt sem áður.“

Hún segir að liðið mæti tilbúið í næsta leik.

„Ég er sko ekki komin hingað til að tapa þessu einvígi, ég get alveg sagt þér það. Ég get alveg drepið mig núna. Ég er hvort sem er að hætta þessu.“

Ágúst: Átti ekki von á betri leik frá þessum dómarapari„Við vorum því miður fjarverandi í byrjun, því miður ,“ segir Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir tapið.

„Þær keyra á okkur trekk í trekk og við vorum að fara illa að ráði okkar frammi. Það er erfitt að vera elta svona gott lið lengi. Stelpurnar gáfust samt aldrei upp og ég var ánægður með það. Við verðum að hafa meiri gæði.“

Hann segir að leikmenn liðsins hafi leyft markverði Fram að verja of mikið frá sér í kvöld.

„Við erum að klúðra mjög góðum færum og það er bara mjög dýrt. Við þurfum bara að skoða okkar leik og bæta hann þó nokkuð til þess að gefa þeim leik á fimmtudaginn.“

Ágúst var ekkert sérstaklega hrifin af dómaraparinu.

„Ég átti svosem ekkert von á betri leik frá þessu pari, ef ég á að segja alveg eins og er. En við töpum ekki í kvöld út af þeim.“

Stefán: Skíthræddur um að spennustigið verði of hátt„Við byrjum vel og komumst í 9-3. Sá munur helst alveg þangað til að það eru sex mínútur eftir og mér fannst við vera betri aðilinn í kvöld,“ segir Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir sigurinn.

„Svona hraður bolti er okkar leikstíl og stelpurnar gerðu þetta mjög vel í dag. Valur er með frábært lið og auðvitað koma þær með áhlaup en mér fannst bara eins og þessi leikur þróaðist þá vorum við með hann.“

Hann segir að liðið hafi skorað mörg mörk í autt markið í kvöld og það hafi skipt sköpum.

„Við förum í alla leiki til að vinna og það verður enginn undantekning á því á fimmtudaginn. Ég er reyndar skíthræddur um að spennustigið verði of hátt, en það verður bara að koma í ljós.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira