Íslenski boltinn

Kaldar kveðjur til fyrrum sérfræðinga

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Upphitunarþáttur Pepsimarkanna var sýndur á Stöð 2 Sport í gærkvöld þar sem farið var yfir öll lið deildarinnar og spáð í komandi tímabil. Víkingi R. og bikarmeisturum ÍBV var spáð falli úr deildinni.

„Víkingi hefur gengið virkilega illa á undirbúningstímabilinu og hafa í raun ekki sýnt neitt sem bendir til þess að þeir séu að fara að halda sæti sínu í Pepsi deildinni,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, einn sérfræðinga þáttanna.

„Það hafa verið gríðarlegar breytingar á leikmannahópnum og að okkar mati hafa þeir ekki náð að fylla í þau skörð sem hafa verið skilin eftir í Vestmannaeyjum,“ sagði Freyr Alexandersson um lið ÍBV.

Þjálfarar liðanna voru mættir í Laugardalinn í gærkvöld og ræddi Hörður Magnússon við þá.

„Okkur hefur ekki gengið vel á undirbúningstímabilinu, það er ekkert hægt að fara í neinar felur með það. Við teljum hins vegar að við séum betri en þetta,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings.

„Það býr ýmislegt í þessu liði og ég held að við allir getum höndlað þessa spá og farið inn í mótið án þess að vera að velta þessu mikið fyrir okkur.“

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, sagði spánna koma sér mikið á óvart.

„Við erum búnir að fá fullt af nýjum leikmönnum, gríðarlega hressum ungum leikmönnum sem vilja sanna sig og það er frekar horft á þá sem eru farnir heldur en þessa hressu pilta sem ætla að spila fyrir okkur í sumar.“

„Mesta vinnan hefur verið að finna menn í varnarstöður og hún hefur gengið hægar en við hefðum viljað, en það hafa ungir leikmenn tekið þessar stöður og þeir eru að vaxa.“

Umfjöllun Pepsimarkanna um Víking og ÍBV má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×