Skoðun

Eru samræmd próf brot á jafnræðisreglu Barnasáttmála?

Rakel Sölvadóttir skrifar
Samkvæmt jafnræðisreglu 2. gr. Barnasáttmála, þá eiga öll börn að njóta sömu réttinda án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.

Það eru mjög skiptar skoðanir um ágæti samræmdra prófa á Íslandi. Sumir telja mikilvægt að ná mælingum á grunnþáttum náms með þessu móti og bera saman milli skóla, sveitarfélaga og milli ára. Allt gott og blessað með það en verður þá ekki að gæta jafnræðis í fyrirlögn?

Vissulega er hægt að sækja um undanþágu frá því að taka prófin vegna til dæmis námsörðugleika. En eru niðurstöður þá ekki skekktar? Eru niðurstöður þá að gefa rétta sýn á námsárangur eins og prófin eru sett upp til að mæla?

Einnig er hægt að sækja um stuðningsúrræði og má þar nefna lengri próftíma og/eða upplestur á prófi. Þetta er gert með það að markmiði að nemendur eigi auðveldara með að sýna færni sína þrátt fyrir fötlun eða sérstakar aðstæður samkvæmt reglum um fyrirlögn samræmdra prófa. Þarna hélt ég að verið væri að gæta jafnræðis en nei, alls ekki. Þarna er verið að stilla börnunum upp fyrir höfnun og óréttlæti þar sem þau geta ekki klárað prófið. Úrræðið má nefnilega ekki skarast við þá færni sem verið er að meta, til dæmis við mat á lestrarfærni samkvæmt blessuðum reglunum.

Tökum sem dæmi barn með lesblindu. Sótt er um stuðningsúrræði og barnið fær því upplestur á prófi til að sýna færni sína. Því miður veitir þessi undanþága ekki jafnræði samkvæmt Barnasáttmála því að nemandinn fær einungis upplestur á hluta prófsins, yfirleitt helmingi eða tveimur þriðju af prófinu. Samkvæmt regluverkinu á nemandinn að hætta að vera lesblindur hinn hluta prófsins.

Er ekki kominn tími á að endurskoða þessa fyrirlögn eða hreinlega leggja hana niður þar sem hún er barn síns tíma?

Höfundur er verkefnisstjóri í HR, stofnandi Skema og FKAfélagskona




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×