Innlent

VR velur úr sex tilboðum um íbúðarhús

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Verð húsanna liggur ekki fyrir, segir Ragnar Þór Ingólfsson
Verð húsanna liggur ekki fyrir, segir Ragnar Þór Ingólfsson Vísir/Stefán
„Það eru allavega sex álitlegir kostir að vinna með áfram,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Félagið auglýsti í byrjun apríl eftir fjölbýlishúsi til kaups á höfuðborgarsvæðinu. Frestur til að gera tilboð rann út á sunnudaginn. Íbúðirnar eru ætlaðar til leigu fyrir félagsmenn VR.

Ragnar segir upplýsingar um upphæðir tilboðanna ekki liggja fyrir að fullu. „Það eru þarna verkefni sem eru í undirbúningi, í smíðum eða á teikniborðinu. Í framhaldinu munum við kalla til þá aðila sem sýndu áhuga og fara betur yfir tölur og útfærslur og fleira,“ segir Ragnar. Hann segir að VR vilji fá íbúðirnar fullbúnar með gólfefnum og tækjum og fleiru. „Þannig að það er að ýmsu að huga en það eru spennandi tímar fram undan. Það eru þarna nokkur verkefni sem mér líst mjög vel á,“ segir hann.

Ragnar segir að í fyrstu sé verið að leita að 20 til 40 íbúða húsnæði. „Síðan reynum við að halda áfram og efla þetta.“ Hann segir að verkefnið verði fjármagnað úr sjóði sem heitir Félagssjóður. Sá sjóður geymir uppsafnaðan rekstrarafgang félagsins og er ótengdur öðrum sjóðum eins og sjúkrasjóði eða verkfallssjóði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×