Körfubolti

Skallagrímur skaust upp fyrir Stjörnuna og spennan magnast

Anton Ingi Leifsson skrifar
Carmen Thyson-Thomas í baráttunni í leik gegn Stjörnunni fyrr í vetur en hún átti afbragðs leik í kvöld.
Carmen Thyson-Thomas í baráttunni í leik gegn Stjörnunni fyrr í vetur en hún átti afbragðs leik í kvöld. vísir/anton
Brittany Dinkins tryggði Keflavík sigur á Stjörnunni í æsispennandi leik, 81-78, í Dominos-deild kvenna í kvöld, en þrír leikir voru í deildinni í kvöld. Skallagrímur skaust upp fyrir Stjörnuna og Njarðvík tapaði enn einum leiknum.

Stjarnan var mikið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik í kvöld og leiddi að honum leiknum 34-46. Í síðari hálfleik snérist leikurinn hins vegar og eins og áður segir tryggði Dinkins Keflavík stigin tvö.

Hún skoraði fjögur síðustu stigin, en stigin fjögur breyttu stöðunni úr 78-77, Stjörnunni í vil, í 81-78, Keflavík, í vil og stigin tvö til Keflavíkur sem eru í þriðja sætinu, með jafn mörg stig og Valur, en lakari innbyrðis viðureign.

Títtnefnd Dinkins var mögnuð í leiknum; skoraði 31 stig, tók átta fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Thelma Dís Ágústsdóttir átti einnig skínandi leik; skoraði 24 stig og tók tíu fráköst.

Hjá Stjörnunni var Danielle Rodriguez einu sinni sem oftar stigahæst. Hún skoraði 30 stig og tók átta fráköst auk þess að gefa fimmtán stoðsendingar. Eins og staðan er núna þá er Stjarnan ekki á leið í úrslitakeppni, en liðið með jafn mörg stig og Skallagrímur í fjórða til fimmta sætinu en lakari innbyrðis viðureign.

Skallagrímur vann Breiðablik á sama tíma, 85-65, í Kópavogi, en frá upphafi voru Borgnesingar mikið sterkari aðilinn. Þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni og ljóst að baráttan um síðasta úrslitakeppnissætið verður hörð, en Skallagrímur og Stjarnan mætast í næst síðasta leiknum.

Carmen Tyson-Thomas gerði 24 stig fyrir Skallagrím og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 13 stig og gaf átta stoðsendingar. Whitney Kiera Knight skoraði 26 stig og tók þrettán fráköst fyrir Breiðablik, en með þessu tapi er úrslitakeppnissætið úr höndum Blika.

Snæfell vann svo Njarðvík í lítt mikilvægum leik í Stykkishólmi, en lokatölur urðu 84-71. Njarðvík á þrjá leiki eftir til þess að fara ekki stigalaust í gegnum mótið, en Snæfell er í sjötta sætinu með 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×