Umfjöllun, viðtöl og myndir: ÍR - Stjarnan 79-73 │ ÍR tók forystuna

Ívar Kristinn Jasonarson skrifar
Úr leiknum í kvöld, en Ryan Taylor var erfiður viðureignar.
Úr leiknum í kvöld, en Ryan Taylor var erfiður viðureignar. vísir/andri marinó
ÍR-ingar tóku á móti Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld. ÍR-ingar fóru með sex stiga sigur af hólmi, 79-73, og eru því komnir með yfirhöndina í einvíginu. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslitin.

Strax frá fyrstu mínútu var ljóst að mikið var í húfi. Bæði lið sýndu mikinn baráttuanda og ætluðu sér sigur hér í kvöld. Liðin spiluðu góðan varnarleik og gekk þeim erfiðlega að skora fyrstu mínúturnar, en staðan 3-3 eftir fyrstu fimm mínútur leiksins. Eftir það tóku heimamenn frumkvæðið og voru yfir eftir fyrsta leikhlutann, 18-14. ÍR hélt yfirhöndinni í öðrum leikhluta og fór með átta stiga forystu inn í hálfleikinn, 39-31.

Í byrjun síðari hálfleiks virtust ÍR-ingar ætla að sigla fram úr og vor komnir með 15 stiga forskot um miðbik þriðja leikhluta. En þá hrukku Stjörnumenn í gang með Hlyn Bæringsson í broddi fylkingar og minnkuðu muninni niður í fimm stig.

ÍR-ingar hleyptu Stjörnumönnum hins vegar ekki nær og fór með 10 stiga forskot inn í fjórða leikhlutann. Jafnræði var með liðunum í síðustu mínúturnar og Stjörnumenn, sem misstu Róbert Sigurðsson, leikstjórnanda sinn, af velli með fimm villur áttu erfitt með að vinna þann mun upp. Svo fór að ÍR-ingar, með Ryan Taylor innan sinna raða, sigruðu leikinn 79-73.

 

Afhverju vann ÍR?

ÍR-ingar spiluðu frábæra vörn í leiknum og Stjörnumenn reyndar líka, enda um tvö af bestu varnarliðum deildarinnar að ræða. Mikil barátta var í báðum liðum en ÍR-ingar voru skrefinu á undan allan leikinn. Skotnýting Stjörnumanna var ekki góð í kvöld og má segja að það hafi ráðið úrslitum í lokin.

Hverjir stóðu upp úr?

Ryan Taylor átti stórleik í liði heimamanna. Hann var stigahæstur í leiknum með 32 stig og náði í níu fráköst. Hann dreif leik heimamanna áfram og skoraði körfur á mikilvægum tímapunktum í leiknum.

Í liði gestanna var það eins og svo oft áður Hlynur Bæringsson sem stóð upp úr. Hann var ragur við stigaskorun framan af en endaði með 15 stig og var stigahæstur Stjörnumanna. Hlynur var með einnig 22 fráköst í kvöld, sjö fleirum en allir liðsfélagar hans til samans.

 

Hvað gekk illa?


Báðum liðum gekk illa að skora til að byrja með sem kemur lítið á óvart enda tvo góð varnarlið að eigast við. En eins og fyrr segir var skotnýting Stjörnumanna ekki góð í kvöld. Í fyrri hálfleik hittu Stjörnumenn einungis úr einu af 18 þriggja stiga skotum sínum og enduðu leikinn með sex þriggja stiga skot niður af þrjátíu.

ÍR-ingar voru slakir á vítalínunni í kvöld, enduðu með 53% vítanýtingu.

Hvað er næst?


Næsti leikur liðanna er á mánudaginn í Ásgarði. Þar þurfa Stjörnumenn að svara fyrir sig en þrjá leiki þarf til að komast í undanúrslitin.

Gífurleg barátta í leiknum í kvöld. Bláklæddur Hlynur Bæringsson.vísir/andri marinó
Hlynur: Þetta var skemmtilegur leikur

Hlynur Bæringsson, fyrirliði, Stjörnunnar var að vonum svekktur í leikslok. „Við ætluðum að byrja seríuna sterkt og vinna hér á útivelli. En þetta samt var skemmtilegur leikur.“

Aðspurður um hvað hafi skilið á milli liðanna í kvöld sagði Hlynur það hafa verið skotnýtingin. „Við hittum illa úr þriggja stiga skotunum en þeir að sama skapi vel. Ég held að það hafi verið munurinn á liðunum hér í kvöld.“

 

„Það vantaði ró og betri framkvæmd hjá okkur í lokin. Við vorum svolítið hauslausir. Síðustu mínúturnar vorum við ekki að finna nógu góðar lausnir við því sem þeir voru að gera,“ sagði Hlynur.

Góð mæting var á leikinn í kvöld og stemningin á pöllunum mikil, enda stuðningsmannasveit ÍR ein sú besta á landinu.

„Það er ekkert erfitt að fá andann upp í þessu liði í svona miklum látum. Mér finnst auðvelt að spila í svona stemningu,“ sagði Hlynur en næsti leikur liðanna leggst vel í hann.

„Við verðum helst að vinna og stefnum á að gera það. Ef við spilum þá svipað og í kvöld og hittum aðeins betur þá getum við það.“

Hvað segiru, vinur?vísir/andri marinó
Matthías: Taugarnar voru í lagi í lokin

Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR, var ánægður með varnaleik sinna mann í kvöld.

„Við höldum þeim í 73 stigum. Taugarnar voru líka í lagi í lokin, þegar við vorum að ströggla náðum við góðum körfum. Við ætlum að vinna hér á heimavelli, vorum mjög harðir allan tímann og slöppuðum sjaldan af í leiknum. Við erum komnir í 1-0 og erum spenntir að spila við þá aftur.“

 

Þessi sömu lið mættust í 8-lið úrslitum í fyrra en þá Stjörnumenn unnu einvígið, 3-0.

„Ég fór í viðtal eftir að þeir sópuðu okkur út í fyrra og ég sagði að ég sem leiðtogi og liðið okkar er með þannig karakter að við komum til baka. Þetta er búið að sitja í okkur lengi, við erum loksins komnir í úrslitakeppnina og við fengum þá aftur.”

Markmiðið er að snúa taflinu við og vinna þá 3-0, við förum í alla leiki til að vinna. Við unnum þá í Garðabænum fyrr í vetur og við teljum okkur geta gert það aftur.“

Hrafn: Auðvelt að vera vitur eftir á

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með spilamennsku sinna manna í kvöld þrátt fyrir tapið.

„Ég er stoltur af því hversu vel strákarnir börðust. Við vorum fínir í fyrri hálfleik og sköpuðum okkur mikið af góðum færum en boltinn fór bara ekki ofan í körfuna,” sagði Hrafn eftir leikinn í kvöld.

„Við buðum upp á 5% skotnýtingu í þriggja stiga og 20% í tveggja stiga í fyrri hálfleik. Ég er í rauninni ekki ósáttur því mér fannst við vera að spila ágætlega á báðum endum en við náðum bara ekki að setja boltann ofan í.”

 

„Það var smá einbeitingarleysi hjá okkur í restina, tapaðir boltar sem voru klaufalegir. Ég hékk kannski of lengi með sama liðið inná. Við vorum með mikla hæð með Collin, Tómas og Hlyn. “

„Sú uppstilling náði næstum að fara með þetta í alvöru leik en það kom kannski augnablik þar sem þeir voru orðnir aðeins þreyttir og ÍR-ingar náðu að slíta sig aftur frá okkur. Það er auðvelt að vera vitur eftir á,“ sagði Hrafn aðspurður um það hvað hefði mátt fara betur í kvöld.

 

Hrafn býst við öðrum hörkuleik á mánudaginn þegar liðin eigast við örðu sinni, þá í Ásgarði.

„Ég býst við að liðin haldi áfram að berjast og taka hart hvor á öðru. Við erum langt því frá hættir. Það hefði verið frábært að taka þennan fyrsta leik, en við förum bara heim og jöfnun þetta og reynum aftur í þriðja leiknum.“

Borche Ilievski.vísir/andri marinó
Borche: Ryan er Ryan

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, var sáttur við frammistöðu hans liðs í kvöld.

„Þetta er góð byrjun hjá okkur. En þetta var bara eitt skref, við þurfum að taka tvö til viðbótar. Ég held að þessi sería muni verða löng. Stjarnan er með reynslumikið lið. Við munum fagna í hálftíma en svo förum við að undirbúa okkur undir næsta leik.“

 

Borche var ánægður með baráttuna sem ÍR-ingar sýndu í kvöld.

„Við vorum harðir í horn að taka varnarlega, áttum kannski í erfiðleikum með sóknarfráköstin en við vitum að Hlynur er mjög sterkur. Við gáfum Stjörnunni oft annað tækifæri og við þurfum að bæta það ef við ætlum að vinna í Garðabæ.“

 

Borche telur góðar líkur á öðrum sigri í Garðabæ á mánudaginn.

„Það eru engin leyndarmál hérna. Við þekkjum þá og þeir okkur. Smáatriðin munu skipta máli ásamt því hversu áræðin og baráttuglöð liðin verða. Ég tel mína leikmenn tilbúna til að taka næsta skref.“

 

Ryan Taylor átti stórleik í liði ÍR-inga í kvöld.

„Ryan er Ryan. Það er erfitt að stoppa okkur með frammistöðu eins og hans hér í kvöld. Hann var góður fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld en átti í smá vandræðum á vítalínunni. Hann spilaði mjög vel varnarlega, sem og allir leikmenn liðsins,“ sagði Borche ánægður í leikslok og bætti við að allir leikmenn liðsins hefðu skilað sínu í kvöld.

Stuðningsmaður ÍR.Vísir/Andri Marinó
Tómas Þórður Hilmarsson.Vísir/Andri Marinó
Hlynur Bæringsson.Vísir/Andri Marinó
Darrell Devonte Combs.Vísir/Andri Marinó
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Andri Marinó
Róbert Sigurðsson.Vísir/Andri Marinó
Darrell Devonte Combs.Vísir/Andri Marinó
Sveinbjörn Claessen.Vísir/Andri Marinó
Kristinn Marinósson.Vísir/Andri Marinó
Matthías Orri Sigurðarson.Vísir/Andri Marinó
Hrafn Kristjánsson.Vísir/Andri Marinó
Eysteinn Bjarni Ævarsson.Vísir/Andri Marinó
Collin Anthony Pryor.Vísir/Andri Marinó
Danero Thomas.Vísir/Andri Marinó
Danero Thomas.Vísir/Andri Marinó
Danero Thomas.Vísir/Andri Marinó
Hlynur Bæringsson.Vísir/Andri Marinó
Kristinn Marinósson.Vísir/Andri Marinó
Ungir stuðningsmenn ÍR.Vísir/Andri Marinó
Marrhías Orri Sigurðarson.Vísir/Andri Marinó
Ryan Taylor.Vísir/Andri Marinó
Leifur Sigfinnur Garðarsson.Vísir/Andri Marinó
Hlynur Bæringsson.Vísir/Andri Marinó
Borce Ilievski.Vísir/Andri Marinó
Hlynur Bæringsson.Vísir/Andri Marinó
Darrell Devonte Combs.Vísir/Andri Marinó
Borce Ilievski.Vísir/Andri Marinó
Borce Ilievski.Vísir/Andri Marinó
Matthías Orri Sigurðarson.Vísir/Andri Marinó
Hlynur Bæringsson.Vísir/Andri Marinó

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira