Enski boltinn

Ryan Giggs valdi ekki stjörnuleikmann Arsenal í fyrsta landsliðshóp sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Ramsey.
Aaron Ramsey. Vísir/Getty
Aaron Ramsey, miðjumaður Arsenal og ein af stærstu stjörnum velska fótboltans síðustu ár, var ekki valinn í nýjasta landsliðshóp Wales.

Ryan Giggs tók nýverið við sem þjálfari velska landsliðsins og þetta var fyrsti hópurinn sem hann velur eftir að hann settist í þjálfarastólinn.

Fjarvera Aaron Ramsey vekur athygli en hann þarf að gangast undir litla aðgerð og er þess vegna ekki valinn samkvæmt Ryan Giggs. Giggs er að taka við starfinu af Chris Coleman sem hætti í lok síðasta árs eftir fimm ára starf.

Aaron Ramsey var um tíma fyrirliði velska landsliðsins en hann var búinn að missa fyrirliðabandið til Everton-mannsins Ashley Williams. Williams verður áfram fyrirliðinn hjá Giggs.





Það hefur gengið á ýmsu hjá Arsenal í vetur en Ramsey skoraði annað marka liðsins í 2-0 sigri á AC Milan á dögunum í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Giggs velur ekki heldur framherjann Hal Robson-Kanu í hópinn en velska liðið er á leiðinni til Kína til að taka þátt í æfingamóti með Kína, Úrúgvæ og Tékklandi.

Gareth Bale er í hópnum og þar eru líka nýliðarnir Chris Mepham, Connor Roberts, Billy Bodin og Michael Crowe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×