Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Haukar 21-30 | Fjölnir fallinn

Gabríel Sighvatsson skrifar
Donni og félagar eru fallnir.
Donni og félagar eru fallnir. vísir/anton
Fjölnir tók á móti Haukum í 20. umferð Olís-deildar karla í Dalhúsi í kvöld. Fyrirfram voru Haukar taldir sterkari aðilinn enda mun ofar í töflunni og höfðu unnið fyrri leik liðanna með 13 marka mun.

Fjölnir þurftu á stigum að halda í kvöld ef þeir ætluðu að eiga von fyrir lokaleikinn sinn. Þeim tókst ekki ætlunarverk sitt, Haukarnir voru einfaldlega of sterkir fyrir þá.

Fjölnismenn virkuðu sterkir fyrstu mínúturnar en eftir að Gunnar Magnússon tók leikhlé rönkuðu Haukar við sér og náðu stjórn á leiknum.

Þeir voru betri bæði í vörn og sókn og lyktaði leikurinn að lokum með 30-21 sigri Hauka. Fjölnir mun spila í Grill 66 deildinni að ári.

Hvers vegna unnu Haukar?

Haukar sýndu gæði sín í kvöld. Það small allt hjá þeim í kvöld, vörn sókn og markvarsla.

Fjölnismenn spiluðu alls ekkert illa en Haukarnir voru bara einu númeri of stórir fyrir þá.

Hvað gekk illa?

Fjölnismenn lentu á vegg þegar kom að því að koma boltanum í netið, þar sem Björgvin Páll var öryggið uppmálaður á milli stanganna.

Heill arargrúi af færum sem Fjölnir misnotaði og hefðu þeir skoraðu úr skotum sínum hefði sagan getað orðið önnur í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin Páll Gústavsson var maður leiksins. Hann var með 22 varin skot og í heild 52 prósent markvörslu.

Markvarsla Fjölnis var líka góð en Ingvar Kristinn og Bjarki Snær afrekuðu samtals 17 varin skot. Þrátt fyrir það skoruðu Haukar 30 mörk.

Hákon Daði Styrmisson var markahæstur Hauka megin með 7 mörk og Andri Berg skoraði 6 fyrir heimamenn, þar af 5 úr vítum.

Hvða gerist næst?

Fjölnir er nú formlega fallið úr efstu deild. Þeir mæta Gróttu í síðasta leik sínum áður en þeir fara í sumarfrí.

Haukar eiga leik við Val um 4. sætið en það er ljóst að úrslitin úr þeim leik munu í raun ekki skipta máli þar sem þessi tvö lið munu alltaf mæta hvoru öðru í úrslitakeppninni.

Gunnar: Kláruðum þetta með sæmd

„Ég er sáttur með heildarbraginn á okkur, við geðrum þetta fagmannlega og vissum að Fjölnismenn myndu berjast til síðasta manns og erfitt að hrista þá af sér. Ég er ánægður með mína menn og við kláruðum þetta með sæmd.“

Hann sagði að þolinmæðin sem hans lið sýndi hafi skilað sér og að allt liðið hafi spilað mjög góðan hadnbolta.

„Þetta var ákveðin þolinmæði, þeir voru að berjast fyrir lífi sínu og við þurftum að vera þolinmóðir og agaðir. Lykillinn var að halda skipulagi og við kláruðum þetta á endanum.“

„Við náðum ágætis tökum strax og ég er ánægður með heildarbraginn, vörn, sókn og markvörslu.“

Það er ljóst eftir úrslit kvöldsins að Haukar mæta ríkjandi Íslandsmeisturum í úrslitakeppninni og fáum við smjörþefinn af því í næsta leik.

„Það er mjög spennandi, Valur er Íslands- og bikarmeistari í fyrra, þeir eru með frábært lið, þetta eru tvö sterk lið að mætast og svona er úrslitakeppnin. Það er allt eða ekkert og þetta verður erfitt og krefjandi en svakalega skemmtilegt að mæta þeim.“

„Við þurfum bara að fara inn í síðasta leikinn sem hvern annan og sækja þau stig sem eru í boði.“ sagði Gunnar að lokum.

 

Arnar Gunnarsson: Ljóst að Fjölnir spilar ekki í efstu deild

„Það er einn leikur eftir en það er ljóst að Fjölnir spili ekki í sömu deild á næsta ári,” sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis.

„Ég er bara vonsvikinn en þetta var að sjálfsögðu erfitt verkefni að vinna Hauka. Það eru samt margir leikir sem að voru „ef og hefði“ og það er bara þannig.“

Stefáni fannst hans lið ekki spila illa en Haukar gæðameiri þegar allt kom til alls.

„Við spiluðum alls ekkert illa. Þeir skourðu síðustu fimm en þetta var alltaf eltingaleikur af okkar hálfu en mér fannst við ekkert spila illa, hvorki vörn ne sókn. Fórum með fullt af færum, mörg línufæri og hornafæri sem að fara og það telur sitt. Þú þarft að fá allt með þér ef þú ætlar að vinna þá og við fengum það ekki.

„Það þurfti allt að ganga upp ef við ætluðum að ná þessu og þá hefðum verið hægt að stilla upp einhverju ævintýri á miðvikudaginn, þannig að það yrði okkur í hag en þetta er bara þannig.“

Fjölnir á einn leik eftir en hvernig lítur Stefán á hann, nú þegar ekkert er í húfi?

„Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og allir frasarnir sem við getum komið með en já, stoltið segjum það bara.“

 

Björgvin: Fínt að hrista bikarhelgina af sér

„Þetta eru góð stig fyrir okkur og fínt eftir bikarhelgina að hrista aðeins úr sér og spila góðan leik, við spiluðum virkilega vel í dag. Það hafa öll liðin lent í vandræðum hér,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka.

„Það var skemmtilegt að fá alvöru leik, þeir voru hungraðir og með læti í byrjun. Svo náðum við að spila okkar leik, á okkar styrkleikum og þá varð þetta erfitt fyrir þá.

Björgvin hrósaði Fjölnismönnum einnig og sagði að niðurstaðan væri sorgleg fyrir þá.

Það er sorglegt að þeir skulu falla, það eru miklir hæfileikar í þessum strákum og Fjölnir er fallegur klúbbur. En það segir mikið um styrkleika deildarinnar, það geta allir unnið alla. Því miður var tímabilið hjá þeim stöngin út.“

Haukar spiluðu heilt yfir virkilega góðan bolta og allir leikmenn góðir í dag.

„Við vorum heilt yfir að spila vel, vörn og sókn. Við fundum lausnir á flestu því sem þeir voru að gera og við vorum fókuseðarir og all-in í öllum aðgerðum og þá erum við kátir.“

„Það er Valur næst og svo úrslitakeppnin. Þetta er hörku deild og ég er mjög spenntur fyrir þessum rosa leikjum sem eru framundan.“ sagði Björgvin að lokum.

 

Andri Berg: Fórum aldrei nálægt þeim

„Þetta er vægast sagt svekkjandi niðurstaða. Þetta er ekki það sem við ætluðum okkur í upphafi tímabils, kannski erum við ekki betri en þetta. Mér finnst mun meira búa í liðinu og við ekki hafa sýnt það í vetur. Þetta hefur oft verið tæpt og það er kannski það sem skilur að.“ sagði Andri.

Haukarnir voru bara einum of stór biti fyrir Fjölnismenn í kvöld.

„Þeir eru ofar í töflunni en þetta var núna eða aldrei leikur fyrir okkur. Við ætluðum okkur að vinna þennan leik og höfðum allir trú á því. Þeir voru bara betri en við í dag. Við erum sjálfum okkur verstir eins og oft áður.“

Það var smá spenna í lokin þegar Fjölnir fór að minnka muninn en sénsinn sem þeir tóku í lokin kom í bakið á þeim.

„Við tókum séns í lokin og fórum í 4-2 vörn og ætluðum að keyra á þá. Við náum aðeins að saxa á þá en vorum aldrei nálægt því þannig séð.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira