Enski boltinn

Pochettino: Vil frekar dómaramistök en að bíða eftir VAR

Einar Sigurvinsson skrifar
Mauricio Pochettino, þjálfari Tottenham.
Mauricio Pochettino, þjálfari Tottenham. vísir/getty
Mauricio Pochettino, þjálfari Tottenham, var harðorður í garð myndbandsaðstoðardómara, eða VAR, í lok sigurleiks sinna manna gegn Swansea í bikarnum í gær.

Heung-Min Son skoraði fyrir Tottenham í leiknum en markið var dæmt ógilt þar sem aðstoðardómarinn dæmdi rangstöðu.

Í kjölfarið tók síðan við nokkurra mínútna bið þar sem myndbandsaðstoðardómarar fóru yfir dóminn og enduðu á að láta hann standa.

„Þetta var martröð. Ég vorkenni þeim sem þurfa að nota þetta kerfi. Ég held að ég vilji frekar dómaramistök en að bíða í þrjár til fjórar mínútur eftir niðurstöðu myndbandsaðstoðardómara,“ sagði Pochettino.

Ákveðið hefur verið að myndbandsaðstoðardómarar verði notaðir á HM í Rússlandi í sumar og líst Pochettino illa á það.

„Þetta er of flókið en það versta við þetta er áhrifin sem þetta hefur á áhorfendur. Þetta verður gífurlegt vandamál í framtíðinni. Við sjáum hvað gerist á HM.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×