Innlent

Eldgosið í Eldgjá ýtti undir kristnitökuna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Áhrifa eldgossins í Eldgjá árið 940 gætti um víða veröld.
Áhrifa eldgossins í Eldgjá árið 940 gætti um víða veröld. Vísir/Auðunn
Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að eldgosið í Eldgjá á tíundu öld hafi ýtt undir það að Íslendingar tóku upp kristni á Þingvöllum. 

Hópur eldfjallasérfræðinga og miðaldarsagnfræðinga, undir styrkri stjórn vísindamanna úr Cambridge, reiddu sig á gögn úr ískjörnum og trjáhringjum til að tímasetja nákvæmlega eldgosið í Eldgjá. Gögn þeirra benda til þess að gosið hafi hafist vorið 939 og hafi staðið fram til haustsins 940, um sex áratugum eftir hið formlega upphaf landnáms Íslands. Fram til þessa hafa flestir talið að gosið hafi byrjað árið 934.

Vísindamennirnir telja að hin nýja tímasetning bendi til þess að gosið hafi auðveldað innreið kristinsdómsins á Íslandi og að sönnunina megi ekki síst finna í Völuspá.

Niðurstöðurnar birtust fyrst í grein í vísindaritinu Climatic Change og má nálgast með því að smella hér.

Eldgosið í Eldgjá er talið hafa verið ógnarstórt en ætlað er að rúmlega 20 rúmkílómetrar af hrauni hafi runnið úr gjánni á því rúma ári sem gosið stóð yfir. Til samanburðar má benda á að hraunmagnið myndi ná að þekja allt England „upp að ökklum,“ eins og það er orðað.

Fram til þessa hefur verið erfitt að áætla nákvæmlega hvenær gosið átti sér stað og hefur það gert vísindamönnum erfitt fyrir að meta raunveruleg áhrif þess. Hin nýja rannsókn bendir þó til þess að það hafi átt sér stað í kringum árið 940 og segir Dr. Clive Oppenheimer, eldfjallasérfræðingurinn sem fór fyrir rannsókninni, að það haldist í hendur við upplifun fyrstu landsnámsmannanna. Margir þeirra hafi jafnvel sjálfir upplifað gosið.

Ríkulegar og lifandi samtímaheimildir úr Evrópu

Þegar vísindamönnunum hafði tekist að tímasetja gosið hófust þeir handa við að rannsaka áhrif þess. Frásagnir frá meginlandi Evrópu benda til þess að gosmökkurinn hafi orðið til þess að sólin hafi virst blóðrauð um alla álfuna. Annálar frá Írlandi, Þýskalandi og Ítalíu renni stoðum undir þá fullyrðingu.

Reykjarmökkurinn hafi að sama skapi orðið til þess að lækka hitastigið í Evrópu enda sólarljós átt erfiðara með að baða álfuna. Vísbendingar úr trjáhringjum bendi þannig til þess að eldgosið hafi framkallað eitt kaldasta sumar síðastliðinna 1500 ára. Sumarhitinn hafi verið um tveimur gráðum lægri en í meðalári.

Því næst hafi rannsakendahópurinn litið á skriflegar miðaldaheimildir til að öðlast innsýn í upplifun samtímamanna af áhrifum gossins. „Þetta var vissulega stórt gos en það kom okkur samt á óvart hvað sögulegar heimildir um áhrif gossins eru ríkulegar,“ er haft eftir Dr. Tim Newfield, einum vísindamannanna. Einstaklingar um víða veröld hafi þurft að þola langan, kaldan vetur og mikla þurrka vegna gossins sem meðal annars hafi leitt til uppskerubrests í Þýskalandi, Írak og Kína.

Hér sést vísindamaður benda á vísbendingarnar í Völuspá.

Vísbendingar í Völuspá

Þrátt fyrir það virðast engar skriflegar heimildir frá Íslandi um gosið hafa varðveist. Hins vegar telja vísindamennirnir að í Völuspá, líklega frægasta miðaldarkvæði Íslendinga, megi finna bitastæða lýsingu á gosinu og áhrifum þess.

Í tveimur erindum Völuspár segir:

Fylliz fjǫrvi

feigra manna,

rýðr ragna sjǫt

rauðum dreyra;

svǫrt verða sólskin

of sumur eftir,

veðr ǫll válynd.

Vituð ér enn—eða hvat?

--------------------------

Sól tér sortna,

sígr fold í mar,

hverfa af himni

heiðar stjǫrnur.

Geisar eimi

ok aldrnara,

leikr hár hiti

við himin sjálfan.

Þegar þessi tvö erindi, það 41 og 57, eru lesin saman segja vísindamennirnir að augljóst sé að höfundurinn sé að lýsa eldgosi, ekki ósvipuðu því sem varð í Eldgjá. Eldtungur sem ná til himins, blauðrauður himinn og svört sól - allt haldist þetta í hendur við lýsingar samtímamanna á áhrifum gossins í Evrópu.

Völuspá lýsir því hvernig heimur heiðnu guðanna líður undir lok. Vísindamennirnir telja að myndin sem dregin er upp í ljóðinu hafi verið notuð til þess að minna fólk á hamfarir eldgossins í Eldgjá og þannig ýta undir að Íslendingar myndu taka upp nýja siði.

„Nú þegar við erum loksins komin með nákvæma tímasetningu fyrir gosið þá virðast margar miðaldaheimildir varpa ljósi á afleiðingar þess. Frásagnir í Evrópu af ótrúlegri móðu, hörðum vetri, köldu sumri, lélegri uppskeru og matarskorti,“ segir Oppenheimer. „En ótrúlegast er hvernig gosinu er lýst eins og af vitni í Völuspá. Túlkunin á ljóðinu sem endalok heiðnu guðanna og hvernig þeim var skipt út fyrir einn, einstæðan guð, bendir til þess að minningar um gosið hafi verið sérstaklega notaðar til að ýta undir kristnitöku á Íslandi,“ bætir Oppenheimer við.

Eða eins og Snorri Þorgrímsson á Helgafelli á að hafa mælt á Þingvöllum: „Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“

Rannsóknina má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×