Erlent

Níu ára drengur skaut systur sína vegna tölvuleiks

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekki er vitað hvernig strákurinn varð sér úti um skammbyssuna.
Ekki er vitað hvernig strákurinn varð sér úti um skammbyssuna. Vísir/AFp
Níu ára strákur í Mississippi í Bandaríkjunum er sagður hafa skotið þrettán ára systur sína til bana vegna tölvuleiks. Strákurinn er sagður hafa gripið byssu eftir að systir hans lét hann ekki fá stýripinna leikjatölvunnar á heimilinu.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að hann hafi skotið hana í hnakkann og að byssukúlan hafi farið í gegnum heila hennar.

Lögreglustjórinn í Memphis tilkynnti í gærkvöldi að stúlkan hafi látist af sárum sínum á sjúkrahúsi í borginni. Ekki er vitað á þessari stundu hvernig drengurinn varð sér úti um byssuna og óljóst er hvaða refsingu drengurinn á yfir höfði sér.

Móðir barnanna var í öðru herbergi þegar hún heyrði skothljóðið en hún hafði verið að gefa systkinum þeirra að borða þegar óhappið varð.

Lögreglan rannsakar nú málið og þá ekki síst hvernig drengurinn nálgaðist skammbyssuna sem hann notaði til verksins.

„Þetta eru ókannaðar slóðir fyrir okkur. Við höfum aldrei þurft að eiga við níu ára barn sem skýtur annað barn,“ er haft eftir lögreglustjóranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×