Fótbolti

Brestur markastíflan hjá Messi gegn Chelsea loksins í kvöld?

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Lionel Messi hefur ekki gengið vel á móti Chelsea í gegnum árin.
Lionel Messi hefur ekki gengið vel á móti Chelsea í gegnum árin. vísir/getty
Einn besti knattspyrnumaður heims, Lionel Messi, leiðir sína menn út á Stamford Bridge í kvöld í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þessi ótrúlegi markahrókur hefur hrellt öll lið Evrópu, nema Chelsea sem virðist alltaf eiga lausnir til að stöðva hann.

Útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu heldur áfram í kvöld þegar 16-liða úrslitin fara af stað á ný en ein stærsta viðureign umferðarinnar er þegar Chelsea og Barcelona mætast og fer fyrri leikurinn fram í Lundúnum.

Er þetta í tíunda skiptið sem Lionel Messi leikur gegn Chelsea í þessari sterkustu deild Evrópu en það magnaða er að honum hefur ekki enn tekist að skora mark í þessum leikjum. Aðeins einn leikur hefur unnist en sá sigur kom fyrir tólf árum.

Þrír stjórar, engin mörk

Þrátt fyrir að Chelsea hafi haft þrjá mismunandi knattspyrnustjóra í leikjunum tíu hafa þeir allir átt svör gegn þessum mikla markahrók sem hefur skorað 534 mörk í 620 leikjum fyrir Börsunga. Kom besta færi hans til að skora hjá Chelsea þegar þessi lið mættust í undanúrslitum þessarar keppni fyrir sex árum en vítaspyrna hans fór í slána. Það reyndist Börsungum dýrkeypt þar sem Fernando Torres sendi Chelsea í úrslitaleikinn með marki í uppbótartíma sem leiddi til fyrsta og eina Meistaradeildartitils félagsins.

Gengið vel gegn öðrum enskum

Messi hefur gengið vel gegn öðrum enskum liðum. Í sextán leikjum gegn Arsenal og Manchester-liðunum tveimur hefur hann unnið ellefu leiki og skorað sautján mörk en Chelsea virðist alltaf eiga lausn gegn honum.

Messi hefur ekki skorað á 665 mínútum gegn enska félaginu en fær nú 180 mínútur til viðbótar til að brjóta ísinn gegn Chelsea.

Courtois með númerið hjá Messi

Messi átti í stökustu vandræðum með að koma boltanum fram hjá Petr Cech er hann lék með Chelsea en þetta er í fyrsta skiptið sem hann mætir enska félaginu með Thibaut Courtois í markinu. Framan af virtist Messi vera martröð fyrir Courtois er hann skoraði sex af ellefu mörkum Barcelona í aðeins þremur leikjum gegn Courtois þegar hann var hjá Atletico Madrid í láni.

Þá virtist Courtois finna töfralausnina þar sem Messi mistókst í næstu átta tilraunum að skora fram hjá belgíska markverðinum hjá Barcelona og með argentínska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×