Innlent

Gríðarlegur vatnselgur tafði ekki flug á Keflavíkurflugvelli

Birgir Olgeirsson skrifar
Mikill vatnselgur myndaðist á Keflavíkurflugvelli í óveðrinu í morgun. Mikil úrkoma fylgdi lægðinni sem fór yfir landið fyrr í dag og var því mikil slydda við Keflavíkurflugvöll. Krapi varð þess valdandi vatn átti ekki greiða leið að niðurföllum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hefur snjóruðningsdeild Keflavíkurflugvallar því haft nóg að gera við að ryðja svæðið í morgun.

Sigurður Björgvin Magnússon, starfsmaður á Keflavíkurflugvelli, tók meðfylgjandi myndband af snjóruðningstækjum á ellefta tímanum í morgun en deildin hefur frá því klukkan átta í morgun verið á fullu við að sópa slabbi og drullu af flugbrautum, flughlöðum og akbrautum. Er sú vinna að klárast og allt að verða greiðfært á flugvellinum.

Níu áætlunarferðum Icelandair til Evrópu seinkaði vegna óveðursins í morgun. Þurftu farþegar að sitja í vélunum á meðan beðið var eftir leyfi til brottfarar. Sigurður segir bremsuskilyrði hafa verið með fínasta móti á flugbrautunum í morgun en mikill kuldi var á Keflavíkurflugvelli og þurfti því að afísa vélarnar fyrir brottför.

Hins vegar var það mikið hvassviðri að ekki var hægt að notast við afísingarbíla. Þurfti því að bíða eftir að veðrið gengi niður svo hægt væri að afísa vélarnar en þær voru allar farnar sína leið á ellefta tímanum í morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×