Körfubolti

Martin: Heiður að hafa fengið að læra af Loga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Logi horfir á eftir boltanum í landsleik. Þetta skot fór að sjálfsögðu ofan í körfuna.
Logi horfir á eftir boltanum í landsleik. Þetta skot fór að sjálfsögðu ofan í körfuna. vísir/valli
Logi Gunnarsson spilar sinn næstsíðasta landsleik í kvöld er Ísland tekur á móti Finnum í undankeppni HM í Laugardalshöllinni.

Logi hefur þjónað íslenska landsliðinu í tæp 20 ár og það verða kaflaskil er hann leggur landsliðsskóna á hilluna.

„Það verður mikill missir af þessum meistara. Það er mikið stolt og heiður að hafa fengið að vera hluti af þessu ferðalagi hans sem og hafa fengið að læra af honum. Ég vona að þjóðin fjölmenni í Höllina og sýni honum þann stuðning sem hann á skilið,“ segir ungstirnið Martin Hermannsson sem mun þurfa að taka við kyndlinum af Loga og fleirum sem eru á útleið.

Martin Hermannsson.vísir/ernir
„Það er ekki sjálfgefið að vera einhver átján ár í landsliðinu og að gefa alltaf kost á sér. Aldrei neitt vesen eða stjörnustælar í honum. Hann er aldrei yfir aðra hafinn. Ég vona að körfuboltafjölskyldan mæti og heiðri Loga. Klappi helst allan leikinn fyrir honum.“

Martin segir ekkert annað koma til greina en að kveðja Loga með sigurleikjum. „Við getum ekki sent Loga út með tap á bakinu. Það kemur ekki til greina. Við viljum vinna þetta fyrir hann sem og okkur sjálfa.“

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×