Körfubolti

Logi: Mun labba af velli með stórt bros

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Karlalandsliðið í körfubolta spilar við Finna í undankeppni HM í Höllinni klukkan 19.45. Þetta verður næstsíðasti landsleikur Loga Gunnarssonar sem hefur þjónað landsliðinu vel og lengi.

Njarðvíkingurinn gaf það út fyrir leiki helgarinnar að þetta yrðu hans síðustu landsleikir. Hann hefur þjónað landsliðinu í 18 ár en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2000. Leikurinn í kvöld verður landsleikur númer 146 hjá kappanum.

„Það hefur verið partur af mínum ferli síðan ég var 17 ára að vera í A-landsliðinu. Þegar ég var að spila erlendis kom ég alltaf heim til þess að spila með landsliðinu. Ég hef verið með sumum þessara stráka í hátt í tvo áratugi og því er mjög sérstakt að vera að stíga til hliðar og hætta þessu,“ segir Logi.

„Ég vissi að það kæmi að þessu. Ég hef hugsað þetta í svolítinn tíma og mér finnst það passa vel að gera þetta núna hér á heimavelli. Ég fór að hugsa um þessa ákvörðun eftir Eurobasket síðasta haust.“

Þessi magnaði leikmaður, og annálaða ljúfmenni, er þegar byrjaður að hugsa um hversu skrítin tilfinning það verði að labba út af eftir sinn síðasta landsleik.

„Þetta verður skrítið enda verið svo stór hluti af mér. Helst að labba frá borði frá leikmönnunum. Við erum mjög nánir og þeir eru eins og bræður mínir. Þetta verður örugglega tilfinningaþrungin stund,“ segir Njarðvíkingurinn en munum við sjá tár á hvarmi?

„Maður veit aldrei. Nei, ætli það. Þetta verður örugglega meira bros. Stórt bros.“


Tengdar fréttir

Logi: Þessi hópur var hið fullkomna lið og eins og bræður mínir

Logi Gunnarsson sagði Vísi frá því í dag að hann muni spila sína síðustu landsleiki í Laugardalshöllinni á föstudags- og sunnudagskvöldið. Logi hefur spilað 145 landsleiki fyrir íslenska körfuboltalandsliðið og skorað meira en 1400 stig og 200 þriggja stiga körfur fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×