Viðskipti innlent

Arion tekur yfir eignir United Silicon

Kjartan Kjartansson skrifar
Verksmiðja United Silicon í Helguvík.
Verksmiðja United Silicon í Helguvík. Vísir/Anton Brink
Skiptastjóri þrotabús United Silicon sem rak starfsemi kísilverksmiðjunnar í Helguvík og Arion banki hafa náð samkomulagi um að bankinn fái að ganga að veðum sínum og taka yfir allar helstu eignir félagsins.

Greint var frá þessu í tilkynningu frá Arion banka nú síðdegis. Í henni kemur fram að nýtt félag verði stofnað um starfsemi kísilverksmiðjunnar. Markmið Arion banka sé að vinna að úrbótum á verksmiðjunni og selja han eins fljótt og auðið er.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, segist ekki geta gefið upp hversu há lán bankans voru til United Silicon. Þrátt fyrir kröfur bankans í þrotabúið séu hærri en áætlað verðmæti eignanna sem hann tekur nú yfir segir Haraldur Guðni ekki hægt að tala um tap fyrir bankann þar til ljóst sé hvaða verð hann fær fyrir eignirnar þegar þær verða seldar.

„Það er í raun ekki fyrr en við sölu þessara eigna sem kemur í ljós hver niðurstaðan verður fyrir bankann,“ segir Haraldur Guðni við Vísi.

United Silicon var úrskurðað gjaldþrota 22. janúar eftir talsverða þrautagöngu. Umhverfisstofnun hafði meðal annars stöðvað starfsemi verksmiðjunnar vegna viðvarandi mengunar frá henni.


Tengdar fréttir

Meirihluta starfsmanna United Silicon sagt upp

Uppsagnir blasa við meirihluta starfsmanna kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Starfsfólki var tilkynnt um þetta á fundi á fjórða tímanum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×