Körfubolti

Fyrsti sigur Bucks í Toronto í fimm leikjum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Giannis Antetokounmpo.
Giannis Antetokounmpo. Vísir/Getty
Framlengja þurfti leik Milwaukee Bucks og Toronto Raptors í bandarísku NBA deildinni í körfubolta í nótt.

Gríska undrið Giannis Antetokounmpo fór fyrir liði Bucks með 26 stig og 12 fráköst í spennuþrungnum leik sem endaði 122-119 fyrir gestina frá Milwaukee.

Með sigrinum náði Bucks að koma enda á sjö leikja sigurgöngu Raptors og það sem meira er hafði Bucks ekki náð að vinna í síðustu fimm heimsóknum sínum til Toronto.

„Þetta er stór sigur fyrir okkur. Toronto er besta liðið í Austurdeildinni og við sýndum það að við getum unnið þá á útivelli,“ sagði Khris Middleton eftir leikinn en hann gerði 21 stig fyrir Bucks.



New Orleans Pelicans þurfti einnig á framlengingu að halda til að vinna Miami Heat. Anthony Davis fór á kostum í fjórða leiknum í röð þegar hann skoraði 45 stig, tók 17 fráköst, átti fimm varin skot og fimm varða bolta.

Þrátt fyrir þennan stórleik munaði aðeins einu stigi á liðunum þegar lokaflautið gall, lokatölur 124-123.

Davis hefur stigið upp eftir að DeMarcus Cousins meiddist og í síðustu fjórum leikjum Pelicans hefur hann skorað að minnsta kosti 38 stig, þrisvar farið yfir 40 stigin.

Goran Dragic gerði sitt fyrir Miami með 30 stig en það dugði ekki til. Dwayne Wade fékk tækifæri til að stela sigrinum með skoti á loka sekúndunum sem féll af hringnum.



Boston Celtics sigraði Detroit Pistons eftir að hafa tapað síðustu þremur leikjum sínum í röð. Hinn þýski Daniel Theis var á meðal bestu manna í liði Celtics og hann náði sínum besta árangri á ferlinum með 19 stig.

Kyrie Irving skoraði 18 og Jayson Tatum 15 í 98-110 sigri Celtics.

LeBron James náði þrefaldri tvennu í útisigri Cleveland Cavaliers á Memphis Grizzlies, 89-112. Hann skoraði 18 stig, tók 14 fráköst og gaf 11 stoðsendingar sem skiluðu honum elleftu þreföldu tvennuna í vetur.

Úrslit næturinnar:

Detroit Pistons - Boston Celtics 98-110

Indiana Pacers - Atlanta Hawks 116-93

Washington Wizards - Charlotte Hornets 105-122

Toronto Raptors - Milwaukee Bucks 119-122

Houston Rockets - Minnesota Timberwolves 120-102

Memphis Grizzlies - Cleveland Cavaliers 89-112

New Orleans Pelicans - Miami Heat 124-123

Denver Nuggets - San Antonio Spurs 122-119

Phoenix Suns - LA Clippers 117-128

Utah Jazz - Portland Trail Blazers 81-100

LA Lakers - Dallas Mavericks 124-102

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×