Innlent

„Lífið er læsi“ yfirskrift nýlegrar læsisstefnu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
„Lífið er læsi“ er yfirskrift nýlegrar læsisstefnu í leik- og grunnskólum Árborgar þar sem læsisstefnunni hefur verið komið  á veggspjöld á öllum leikskóladeildum og skólastofum grunnskólanna. Fræðslustjóri Árborgar höfðar sérstaklega til foreldra og ekki síst til ömmu og afa barnanna þegar lesið er heima. 

Boðað var til hátíðarathafnar í Vallaskóla á Selfossi í vikunni þar sem fór fram kynning á læsisstefnu sveitarfélagsins Árborgar sem hófst formlega fyrir ári síðan. Nú var komið að því að afhenda fulltrúum leikskólanna og grunnskólanna sérstök læsisveggspjöld til að koma fyrir á áberandi hátt í skólunum.

 

Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri Árborgar, segir að ömmur og afar geti spilað stórt hlutverk þegar komi að lestri barna.Skjáskot af frétt stöðvar 2
„Þetta tengist læsisstefnunni sem við gáfum út fyrir rúmu ári síðan. Við leggjum enn meiri áherslu á hana og vinnum saman að því að efla læsi. Þetta er hluti af þróunarverkefni sem hefur staðið í fjögur ár. Við erum alltaf að gera betur og betur og þurfum að gera enn betur, að sjálfsögðu,“ segir Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri Árborgar.

Það á ekki bara að lesa í skólanum,  heimalestur er mjög mikilvægur en þar segir Þorsteinn að afi og amma geti spilað stórt hlutverk.

„Já, gríðarlega mikilvæg. Sjálfur er ég nú afi og ég reyni að standa mig gagnvart barnabörnunum,“ segir Þorsteinn og skellir upp úr.

Elín Karlsdóttir er mikill lestrarhestur.Skjáskot af frétt stöð 2
Elín Karlsdóttir sem er tólf ára nemandi í Barnaskólanum á Eyrarbakka, segir að lestur sé mjög mikilvægur. Sjálf sé hún mjög dugleg að lesa.

„Ég les svona fimm sinnum í viku held ég, eða meira,“ segir Elín sem er hrifnust af bókmenntum eftir norska rithöfundinn Jo Nesbø.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×