Enski boltinn

Sjáðu mark Gylfa og öll hin mörkin úr leikjum gærdagsins

Dagur Lárusson skrifar
Sex leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í gær og var mikið af umdeildum atvikum og flottum mörkum sem litu dagsins ljós. Harry Kane tryggði Tottenham sigur á Arsenal með frábærum skalla og Sergio Aguero gerði sér lítið fyrir og skoraði fjögur gegn Leicester. Gylfi Þór Sigurðsson var síðan allt í öllu í sigri Everton á Crystal Palace.

Tottenham var mikið sterkari aðilinn gegn Arsenal á Wembley í gær. Harry Kane skoraði hinsvegar eina mark leiksins en það kom á 49. mínútu. Þá fékk Ben Davies nægan tíma á vinstri kanntinum og gaf hann frábæra fyrirgjöf inná teig, beint á kollinn á Harry Kane sem stangaði boltann í netið.

Alexandre Lacazette fékk gullið tækifæri til þess að jafna metin fyrir Arsenal undir blálokin en skot hans fór rétt framhjá markinu.

Manchester City gerði jafntefli við Burnley í síðustu umferð og voru lærisveinar Guardiola því staðráðnir í það að koma sér aftur á sigurbraut gegn Leicester. Raheem Sterling skoraði eftir aðeins 3. mínútur eftir sendingu frá Kevin De Bruyne en Jamie Vardy jafnaði metin fyrir Leicester skömmu seinna og var staðan 1-1 í hlé.

Í seinni hálfleiknum var Sergio Aguero með algjöra sýningu þar sem hann skoraði fjögur mörk, og voru tvö þeirra eftir undirbúning frá Kevin De Bruyne. Fjórða mark Aguero og fimmta mark City var einkar glæsilegt en þar skoraði hann fyrir utan teig.

Gylfi Þór Sigurðsson var maður leiksins gegn Crystal Palace í 3-1 sigri Everton þar sem hann skoraði fyrsta mark leiksins. Hann lagði einnig upp þriðja mark Everton á Tom Davies.

Tottenham 1-0 Arsenal
Everton 3-1 Crystal Palace
Swansea 1-0 Burnley
Stoke 1-1 Brighton
West Ham 2-0 Watford
Manchester City 5-1 Leicester



Fleiri fréttir

Sjá meira


×