Skoðun

Húsnæðismálin – litlu og stóru lausnirnar

Gunnar Axel Axelsson skrifar
Nú þegar er of mikil og langvarandi spenna á húsnæðismarkaði. Það birtist m.a. í stöðugt hækkandi söluverði húsnæðis, háu leiguverði, löngum biðlistum eftir félagslegu húsnæði og erfiðri stöðu margra hópa, ekki síst þeirra sem eru að stíga sín fyrstu spor á húsnæðismarkaði. Þetta eru staðreyndir sem öllum eru löngu kunnar. Hingað til hefur umræðan að mestu leyti snúist um leiðir til að auka framboð af hefðbundnu íbúðarhúsnæði en síður um eðli þeirrar eftirspurnar sem ræður ferðinni. Ef árangur á að nást verður hins vegar að horfa til fleiri þátta og koma fram með fleiri og fjölbreyttari lausnir.

En hverjar eru lausnirnar?

Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að flestar lausnir í húsnæðismálum eru í eðli sínu langtímalausnir. Ákvarðanir stjórnvalda og inngrip geta vissulega skipt máli en oftast koma áhrifin ekki fram fyrr en nokkuð löngu síðar, oftast einhverjum árum eftir að ákvarðanir eru teknar og hafist er handa við ný verkefni eða breytingar á húsnæðiskerfinu eru innleiddar. Á þessu eru hins vegar undantekningar og í ljósi þeirra ríku almannahagsmuna sem eru í húfi verða stjórnvöld að horfa til þeirra líka.



Gisting fyrir ferðamenn og tímabundið vinnuafl

Á meðal raunverulegra áhrifaþátta er eftirspurn ferðamanna eftir gistingu í húsnæði sem hvorki er skipulagt né byggt undir gistiþjónustu og sömuleiðis eftirspurn þeirra sem koma hingað tímabundið til starfa, t.d. í byggingariðnaði. Að ætla að leysa húsnæðisþarfir þessara hópa með varanlegum húsnæðislausnum er hvorki raunhæft né þjóðhagslega hagkvæmt. Þarfir þessara hópa þarf að leysa með viðeigandi hætti þannig að tryggt sé að ferðamenn sem hingað vilja koma fái gistingu við hæfi og tímabundið vinnuafl sem hingað kemur njóti sömuleiðis viðunandi skilyrða og kjara. Í ljósi þess augljósa og brýna vanda sem blasir við í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu er að sumu leyti óskiljanlegt hvers vegna sveitarfélögin hafa ekki gripið inn í á þeim sviðum þar sem þeim er það klárlega mögulegt og áhrifin eru skjótvirkari.



Þurfum ekki að finna upp hjólið

Í löndunum í kringum okkur er hægt að finna mörg dæmi um viðlíka þróun og sömuleiðis dæmi um skynsamlegar lausnir. Í Amsterdam, sem dæmi, brugðust stjórnvöld við og settu AirBnB það skilyrði að almenn útleiga á íbúðarhúsnæði til ferðamanna væri háð þeirri takmörkun að húseigandi byggi í viðkomandi fasteign, ella væri útleigan takmörkuð við 60 gistinætur á ári. Áhrifin af þessu inngripi þarlendra stjórnvalda voru mjög jákvæð og til hagsbóta fyrir almenning. Borgaryfirvöld ætla þó ekki að láta staðar numið heldur ætla þau að takmarka útleigu við 30 daga á ári frá og með næsta ári. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um umfang þessarar starfsemi hér á landi en flest bendir til þess að umfangið, og þar með áhrifin á innlendan húsnæðismarkað, séu umtalsvert meiri hér á landi en víðast hvar annars staðar, m.a. í Hollandi.

Það sama má segja um áhrif sístækkandi hóps sem kemur hingað til tímabundinna starfa. Hingað koma mörg þúsund manns á hverju ári til að vinna tímabundið og margt sem bendir til þess að í allt of mörgum tilvikum búi þessi hópur við óviðunandi aðstæður. Lausn á málefnum þessa hóps er því brýn og þar fara saman hagsmunir þeirra sem hér búa að staðaldri og þeirra sem koma hingað tímabundið til starfa.



Sveitarfélögin ráða ferðinni

Til að mæta þeim sveiflum sem eru í fjölda þeirra sem hingað koma til tímabundinna starfa verður að skapa viðunandi framboð af húsnæðislausnum, lausnum sem eru af gæðum sem hópurinn leitar eftir og telst í samræmi við þær almennu kröfur sem við gerum hér á landi varðandi tímabundið húsnæði. Sem betur fer eru til ákjósanlegar lausnir sem ekki kalla á varanlegar og tímafrekar framkvæmdir , t.d. einingahúsnæði sem hægt er að reisa á skömmum tíma og hægt er að flytja milli staða ef þess reynist þörf.

Það ætti í raun að vera baráttumál ekki aðeins sveitarfélaganna heldur einnig og ekki síður stéttarfélaganna að vinna að framgangi slíkra lausna. Þar fara hagsmunir allra félagsmanna saman, bæði þeirra sem þurfa á tímabundnu en góðu húsnæði á eðlilegum kjörum að halda en ekki síður allra hinna sem þurfa á húsnæði að halda til lengri tíma. Þá skal heldur ekki vanmeta áhrif óæskilegrar verðþróunar húsnæðis á þróun kaupmáttar og almenn lífskjör í landinu.



Næstu skref

Ef halda á aftur af verðbólgu hér á landi og tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðuleika er nauðsynlegt að greina vandann og koma augljósum og hagkvæmum lausnum í framkvæmd. Samtök fyrirtækja í byggingariðnaði og ferðaþjónustu og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar þurfa að opna á samtal sín í milli og sveitarfélögin verða sömuleiðis að koma með virkum hætti að því borði. Það er í þeirra valdi að takmarka útleigu almenns íbúðarhúsnæðis í tengslum við ferðaþjónustu og skapa grundvöll fyrir uppbyggingu húsnæðislausna í samræmi við þarfir þess fólks sem hingað kemur til tímabundinna starfa.



Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×