Innlent

Á þriðja tug snjóflóða féllu í Súðavíkurhlíð á innan við sólarhring

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Á þriðja tug snjóflóða hafa fallið í Súðavíkurhlíð á skömmum tíma og er hægt að tala um sannkallaða snjóflóðahrinu að sögn sérfræðings. Veður var með ágætu móti víða í dag en búist er við leiðindaveðri aftur í nótt og á morgun. Talsverður snjóþungi gæti orðið í borginni í fyrramálið.

Minnst 24 snjóflóð féllu í Súðavíkurhlíð á Vestfjörðum aðfaranótt sunnudags og á sunnudaginn samkvæmt upplýsingum frá snjóflóðavakt Veðurstofunnar. Að sögn Tómasar Jóhannessonar snjóflóðasérfræðings eru það óvenju mörg flóð í einni hrinu. Afar snjóþungt hefur verið víða um land og hafa snjóflóð fallið bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.

Vestfirðingar voru frelsinu fagnandi eftir að vegurinn um Súðavíkurhlíð og aðrir vegir voru opnaðir að loknum snjómokstri í dag. Áfram gæti þó verið flóðahætta til fjalla og gæti hættan farið vaxandi aftur í nótt og því ástæða til að gæta fyllstu varúðar.

Þótt veður hafi verið með ágætu móti víða um landið í dag er þó tíðinda aftur að vænta í nótt og í fyrramálið þegar ný lægð læðist upp að landinu með tilheyrandi ofankomu og hvassviðri. Að sögn veðurfræðings kemur lægðin inn yfir landið í nótt með hvössum vindi, snjókomu og skafrenningi. Tekur að lægja eftir því sem líður á eftirmiðdaginn og veður versnar strax aftur á miðvikudaginn.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins mega því búast við að umferð verði talsvert þung og gangi hægt fyrir sig í fyrramálið  og er því ráðlagt að gefa sér góðan tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur gengið ágætlega að ryðja snjó af götum og göngustígum borgarinnar þó einhver biluð tæki hafi sett strik í reikningin. Því er biðlað til vegfarenda að sýna biðlund og þolinmæði en snjómokstur í íbúðagötum getur tekið allt að einhverja daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×