Körfubolti

Kyrie Irving mætir sem „Uncle Drew“ í kvikmyndahúsin í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving sem „Uncle Drew“
Kyrie Irving sem „Uncle Drew“ Twitter/Kyrie Irving

Kyrie Irving hefur blómstrað með nýju liði í NBA-deildinni í körfubolta eftir að hann kom til Boston Celtics og slapp út úr skugga LeBron James hjá Cleveland Cavaliers.

Þessi leikni bakvörður hefur komst verið í hópi bestu bakvarða deildarinnar síðustu ár en nú er hann kominn í umræðuna um bestu leikmenn deildarinnar.

Kyrie Irving er með 24,6 stig og 5,0 stoðsendingar að meðaltali með Boston liðinu á tímabilinu til þessa og liðið hefur unnið 69 prósent leikja sinna (40 af 58) eða sjö fleiri sigra en Cleveland Cavaliers.

Kyrie Irving vakti mikla athygli um árið þegar hann klæddi sig upp í gervi gamlingjans „Uncle Drew“ og plataði unga menn upp úr skónum á leikvellinum.

Nú mun „Uncle Drew“ fá sína eigin kvikmynd og hún kemur í bíó 29. júní í Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingum IMBD munu stjörnur eins og þeir Shaquille O'Neal, Chris Webber, Reggie Miller, Nate Robinson og Lisa Leslie einnig leika í myndinni.

Kyrie Irving sjálfur sagði frá þessu á Twitter og tilkynnti þar að goðsögnin væri klár í að spila körfubolta á stóra tjaldinu.
 

Fyrsta sinn sem „Uncle Drew“ birtist þá var það í Pepsi Max auglýsingunum sem má sjá hér fyrir neðan. Það er alltaf jafngaman að sjá „gamla karlinn“ taka sig til að leika sér að uppveðruðum ungum mönnum sem vissu ekkert hvað á sig stóð veðrið.


NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.