Körfubolti

Grindvíkingar ætla ekki að kvarta formlega yfir dómaranum með ruslakjaftinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. vísir/ernir

Það vakti athygli eftir leik Grindavíkur og Njarðvíkur í gær að Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, skildi kvarta yfir dómara sem hefði verið með „trash talk“ í garð leikmanns Grindavíkur.

„Þetta var ekkert sem ræður úrslitum en þegar dómarar, eða einn af þremur, er farinn að vera með stæla og svokallað „trash talk“ við leikmenn þá er það komið út fyrir öll velsæmismörk og á ekki að sjást. Það er eitthvað sem ég ræð ekki við og er orð á móti orði,“ sagði Jóhann við Vísi eftir leikinn í gær.

Vísir hafði samband við Jóhann Þór aftur í dag til þess að knýja hann frekari svara við þessum ummælum. Hvað það hefði nákvæmlega verið sem dómarinn hefði sagt við hans leikmann.

„Það var leikmaður í mínu liði sem kvartaði yfir þessu og ég kom því til skila til dómara leiksins. Ég veit ekki nákvæmlega hvað gekk á en það var verið að senda einhverjar pillur. Ég á eftir að ræða betur við leikmanninn sem lenti í þessu og mun gera það í kvöld. Ég veit í raun ekkert meira,“ segir Jóhann Þór en hann vildi ekki gefa upp hvaða dómari hefði verið með hina meintu stæla í gær.

Þeir Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Jóhann Guðmundsson dæmdu leikinn og samkvæmt heimildum Vísis er það Jóhann sem á að hafa verið ruslatalið.

Grindvíkingar ætla sér ekki lengra með málið og munu ekki kvarta formlega við KKÍ vegna hegðunar dómarans.

„Ég hef ekkert upp úr því. Það verður bara orð á móti orði.“

Hér að neðan má sjá samskipti Jóhanns dómara og Jóhanns Árna Ólafssonar, leikmanns Grindavíkur. Jóhann Árni fórnar höndum eftir að hafa heyrt eitthvað frá dómaranum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.