Erlent

Zuma sagt að víkja úr embætti

Atli Ísleifsson skrifar
Jacob Zuma tók við forsetaembættinu í Suður-Afríku árið 2009.
Jacob Zuma tók við forsetaembættinu í Suður-Afríku árið 2009. Vísir/AFP

Miðstjórn Afríska þjóðarráðsins, stjórnarflokks Suður-Afríku, hefur formlega beint þeim tilmælum til Jacob Zuma, forseta landsins, að hann segi af sér „sem fyrst“.

BBC greinir frá þessu og vísar í framkvæmdastjóra flokksins, Ace Magashule. Zuma hefur þrálátlega neitað að láta af störfum þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir samflokksmanna á síðustu vikum og mánuðum. Miðstjórn flokksins fundaði í alla nótt vegna málsins.

Hinn 75 ára Zuma hefur sjálfur samþykkt að láta af embætti, en þó ekki fyrr en að þremur til sex mánuðum liðnum.

Zuma tók við forsetaembættinu í Suður-Afríku árið 2009, en á síðustu árum hefur hvert spillingarmálið á fætur öðru tengt forsetanum komið upp.

Ace Magashule, framkvæmdastjóri Þjóðarráðsins. Vísir/AFP

Ramaphosa taki við
Miðstjórn flokksins vill að varaforsetinn Cyril Ramaphosa taki við embættinu af Zuma, en Ramaphosa var kjörinn formaður flokksins í desember síðastliðinn.

Magashule sagði ákvörðun miðstjórnar vera endanlega. Hann sagði þó Zuma hafa komið þeirri skoðun sinni á framfæri að hann teldi miðstjórnina ekki hafa heimild til að leggja fram beiðni sem þessa.

Magashule sagðist jafnframt búast við að Zuma bregðist við tilmælum miðstjórnar á morgun, þó að enginn frestur hafi verið gefinn í því samhengi.

Kosningar fara fram í Suður-Afríku á næsta ári. Lög í landinu koma í veg fyrir að Zuma hefði getað boðið sig fram að nýju, en forseti má einungis sitja tvö kjörtímabil.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.