Sport

Íþróttaliðin frá Philadelphia hafa unnið alla leiki sína eftir sigur Eagles í Super Bowl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid er aðalhetjan í körfuboltaliði Philadelphia 76ers.
Joel Embiid er aðalhetjan í körfuboltaliði Philadelphia 76ers. Vísir/Getty

Philadelphia Eagles fagnaði sigri í fyrsta sinn í Super Bowl eftir sigur á New England Patriots í úrslitasleik NFL-deildarinnar 4. febrúar síðastliðinn. Síðan þá hafa atvinnumannaliðin frá Philadelphia ekki tapað leik.

Sigur Eagles hefur greinilega smitast út til hinna liðanna í borginni og það er ljúft að vera íþróttaáhugamaður í Philadelphiu þessa dagana.

NBA-liðið Philadelphia 76ers hefur unnið alla fjóra leiki sína og íshokkí liðið Philadelphia Flyers hefur einnið unnið fjóra leiki án þess að tapa.







Philadelphia 76ers vann aðeins einn af fimm síðustu leikjum sínum fyrir Super Bowl en hefur síðan unnið fjóra leiki í röð og það með 15,3 stigum að meðaltali í leik. Naumasti sigurinn er 13 stiga sigur á Washington Wizards. Hinir sigrarnir voru á móti New Orleans Pelicans, Los Angeles Clippers og New York Knicks.

Philadelphia Flyers tapaði fjórum síðustu leikjum sínum fyrir Super Bowl en liðið er taplaust síðan. Flyers liðið vann Carolina Hurricanes, Montreal Canadiens, Arizona Coyotes og Vegas Golden Knights.  

Tvö önnur atvinnumannalið spila í borginni en það eru hafnarboltaliðið Philadelphia Phillies og fótboltaliðið Philadelphia Union.

Philadelphia Phillies spilar sinn fyrsta leik á 2018-tímabilinu 29. mars næstkomandi en MLS-fótboltadeildin fer af stað í byrjun marsmánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×