Skoðun
Guðmundur Tómas Axelsson, framkvæmdastjóri WebMo Design

Netverslun – hvað þarf að hafa í huga?

Guðmundur Tómas Axelsson skrifar

Netverslun hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár. Samkvæmt þjóðarpúls Gallup keyptu rúmlega 40 prósent landsmanna jólagjafir á netinu fyrir síðustu jól. Er þetta töluverð aukning frá árinu áður og ljóst er að bæði innlend og erlend netverslun eykst ár frá ári. Íslensk verslun á sem aldrei fyrr í samkeppni við erlenda verslun. Nú eru það ekki einungis utanlandsferðir landans sem verslanir þurfa að hafa áhyggjur af heldur einnig stóraukin erlend netverslun. Þessi þróun hlýtur að vekja verslanir til umhugsunar og eru margar líklega nú þegar lagðar af stað til að taka þátt í henni.

Í boði eru ýmsar lausnir, sérsmíðaðar sem og fullbúnar alþjóðlegar lausnir (t.d. Shopify, Woocommerce, Magento, BigCommerce o.fl.), sem eru í stöðugri þróun. Hvað þarf hins vegar að hafa í huga þegar kemur að því að velja lausn fyrir netverslun? Þarfir eru ólíkar og áður en lausn er valin þarf meðal annars að skoða eftirfarandi atriði:


Kostnaður

Hvað hefur fyrirtækið mikið fjármagn í að þróa og reka vefverslun? Það er til dæmis almennt ódýrara að velja fullbúna vefverslunarlausn en sérsmíðaða.


Tækniþekking

Hversu mikilli tækniþekkingu býr fyrirtækið yfir? Þeim mun meiri tækniþekking, þeim mun meiri geta til að takast á við flóknari lausnir.


Notendaviðmót

Hversu notendavæn er lausnin? Notendaviðmótið er oftast það sem gefur vefverslunum forskot á markaði. Betri upplifun notenda ýtir undir sölu og viðskiptatryggð. Hins vegar kostar slík þróun peninga.


Þjónusta

Hversu góð er þjónusta fyrirtækisins sem þróar netverslunina? Fyrirtæki sem þróa og sérsmíða eigin lausnir bjóða upp á fulla þjónustu en fullbúnar staðlaðar lausnir bjóða oft upp á takmarkaða þjónustu, ekki nema að það sé milligönguaðili sem þjónustar lausnina.


Sveigjanleiki og aðlögun 

Er hægt að laga lausnina að þörfum fyrirtækisins hvað varðar útlit, uppsetningu o.fl.? Þeim mun meira sem fyrirtækið aðlagar lausnina sínum þörfum, þeim mun líklegra er að það þurfi að búa yfir góðri tækniþekkingu eða treysta á góða tækniþjónustu. Auk þess sem kostnaður verður meiri.


Hraði og öryggi

Hversu hröð og örugg er vefverslunin? Flestar fullbúnar lausnir bjóða upp á hýsingu og stýra auk þess öryggismálunum. Ef fyrirtækið er með sérþarfir hvað þetta varðar, henta hugsanlega sérsmíðaðar lausnir betur.


Binding

Ef fyrirtækið velur fullbúna lausn þá er líklegt að það geti skipt um þjónustuaðila á einfaldan hátt þar sem margir þjónustuaðilar sérhæfa sig í lausninni. Með sérsmíðaða lausn er fyrirtækið í raun og veru fast hjá sama þjónustuaðilanum ef upp kemur óánægja.


Leitarvélabestun og stafræn markaðssetning

Þær lausnir sem eru í boði eru misvel þróaðar fyrir leitarvélabestun og stafræna markaðssetningu. Sum kerfi bjóða til dæmis upp á einfaldar tengingar við samfélagsmiðla eins og Facebook og Instagram.

Höfundur er framkvæmdastjóri WebMo DesignAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.