Körfubolti

Allt í molum í Bítlabænum: „Ég myndi ekki láta sjá mig úti á götu ef ég væri leikmaður Keflavíkur“

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Keflavík er í molum í Domino´s-deild karla í körfubolta en liðið tapaði fyrir langneðsta liðinu Hetti í síðustu umferð og er nú búið að tapa sjö heimaleikjum í röð.

Bítlabæjarliðið er í áttunda sæti með 16 stig, tveimur stigum á undan Þór Þorlákshöfn en á erfiða leiki eftir og er hætta á því að Keflavík fari ekki í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögunni.

„Þessi frammistaða er bara brandari. Ég lofa þér því, að ef ég væri að spila með þessu Keflavíkurliði myndi ég ekki láta sjá mig úti á götu. Ég myndi ekki mæta í vinnu. Þetta er bara búið,“ sagði Kristinn Friðriksson, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur og sérfræðingur í Domino´s-Körfuboltakvöldi í Framlengingu gærkvöldsins.

„Það er allt í rústi þarna. Ég get ekki einu sinni byrjað á því að útskýra þetta. Ég sárvorkenni þjálfurunum að glíma við þetta því að þetta er eitthvað sem hefur aldrei gerst og ég trúi ekki að þetta muni nokkurn tíma gerast aftur í Keflavík.“

Hermann Hauksson var hjartanlega sammála Kristni.

„Það er að það vanti gæði í liðið. Það er bara eitthvað í gangi sem að við náum ekki að útskýra í þessum þætti. Það er allt í molum þarna. Það hefði enginn getað veðjað á að Keflavík myndi tapa sjö heimaleikjum í röð. Það er eitthvað í gangi sem að þeir þurfa að vinna úr. Keflvíkingar eiga nú eftir að upplifa það að fara ekki í úrslitakeppnina í fyrsta skipti,“ sagði Hermann.

Alla framlenginguna má sjá í spilaranum hér að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.