Íslenski boltinn

Meira barnalán hjá stelpunum okkar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir á æfingu með Íslandi á EM.
Hólmfríður Magnúsdóttir á æfingu með Íslandi á EM. tom
Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður KR og íslenska landsliðsins í fótbolta, er ólétt en frá þessu greinir hún á Instagram-síðu sinni.

Framherjinn öflugi deilir sónarmynd og skrifar: „Spennandi tímar framundan, en mikið hlakka ég til ný hlutverks í lok júní þá ætlar einn lítill prins að láta sjá sig. Núna hefst lífið af alvöru.“

Það er því ljóst að Hólmfríður verður frá keppni næstu mánuðina og verður hún því vafalítið ekki í leikmannahóp íslenska liðsins á Algarve-mótinu sem kynntur verður á morgun.

Þá missir hún væntanlega af fyrri helming Pepsi-deildarinnar með KR sem er mikil blóðtaka fyrir Vesturbæjarliðið. Hólmfríður kom heim úr atvinnumennsku fyrir síðustu leiktíð og skoraði sex mörk í þrettán leikjum fyrir KR sem var í mikilli fallbaráttu.

Hólmfríður á að baki 112 landsleiki fyrir íslenska landsliðið og 37 mörk en hún er önnur landsliðskonan sem tilkynnir óléttu sína á skömmum tíma en ekki er langt síðan að Dagný Brynjarsdóttir tilkynnti að hún gengur með sitt fyrsta barn.

Hólmfríður og Dagný voru báðar í leikmannahópnum á EM síðasta sumar en Hólmfríður hefur farið á öll þrjú Evrópumótin með stelpunum okkar. Elísa og Margrét Lára Viðarsdætur eru einnig óléttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×