Erlent

Netanyahu vísar ásökunum á bug

Atli Ísleifsson skrifar
Benjamín Netanyahu ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi.
Benjamín Netanyahu ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi. Vísir/AFP
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, vísar því algjörlega á bug að hann sé flæktur í spillingarmál. Lögreglan í Ísrael hefur forsætisráðherrann grunaðan um að flækjast í mútumál og sagði í gær að rétt væri að ákæra hann.

Netanyahu hélt tölu í ísraelska sjónvarpinu í gærkvöldi þar sem hann sagði allar slíkar ásakanir byggðar á falsi og hét hann því að halda áfram sem forsætisráðherra. Hann bætti því við að hann sé öruggur um að sannleikurinn eigi eftir að koma í ljós.

Lögreglan segir hins vegar að næg sönnunargögn séu fyrir hendi til að ákæra hann fyrir mútur og sviksemi í tveimur aðskildum málum. Forsætisráðherrann er 68 ára og gegnir nú embætti forsætisráðherra öðru sinni á ferlinum en alls hefur hann setið í þessu valdamesta embætti Ísraels í tólf ár.

Gæti tekið mánuði

Saksóknari fer nú yfir málið og gæti það tekið nokkra mánuði að koma í ljós hvort ákærur verði gefnar út.

Annað málið snýst um að Netanyahu hafi beðið ritstjóra dagblaðs um jákvæða umfjöllun um sig og í staðinn bauðst hann til að gera keppinauti blaðsins erfitt fyrir. Hitt málið snýr að ásökunum þess efnis að ráðherrann hafi þegið gjafir sem voru milljóna virði frá kvikmyndaframleiðandanum Arnon Milchan. Í staðinn hugðist Netanyahu aðstoða Milchan við að fá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×