Innlent

Réðst á konu eftir að hafa komist yfir símagögn fyrrverandi eiginmanns

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Höfuðstöðvar Nova i Lágmúla.
Höfuðstöðvar Nova i Lágmúla.

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjarskiptafyrirtækið Nova hafi brotið persónuverndarlög þegar það afhenti fyrrverandi eiginkonu manns yfirlit yfir símanotkun hans í fyrra.

Maðurinn kvartaði til Persónuverndar vegna þessa en eftir að hafa skoðað símayfirlit mannsins og komist að samskiptum hans við aðra konu þá hafði hún uppi á henni og réðst á hana með ofbeldi. Mun árásin vera á borði lögreglu. Nova segist hafa skerpt á starfsreglum sínum um afhendingu símagagna í kjölfarið.

Úrskurður Persónuverndar var kveðinn upp á fundi stjórnarinnar þann 18. janúar síðastliðinn en birtur á vef Persónuverndar í dag. Kvörtun mannsins barst Persónuvernd þann 14. júní í fyrra og hefur hún verið til skoðunar síðan þar sem óskað hefur verið eftir umsögnum kvartanda og Nova.

Sögðu konuna hafa beitt blekkingum
Nova segir að fyrrverandi eiginkona mannsins hafi komið á skrifstofu Nova og framvísað greiðslukorti fyrirtækis sem skráð er á manninn. Hafi hún því beitt blekkingum þegar hún óskaði eftir yfirliti yfir símanotkunina. Maðurinn hafnaði þessum skýringum og sagði konuna aldrei hafa verið með greiðslukort fyrirtækisins í sinni vörslu. Háttsemi Nova yrði á engan hátt réttlætt og útskýringar breyttu engu um sök félagsins.

Brot Nova hefðu leitt til þess „að sá einstaklingur, sem fékk upplýsingarnar afhentar, réðst á annan einstakling með ofbeldi“. Farið væri fram á að Nova yrði beitt viðeigandi viðurlögum.

Var það niðurstaða Persónuverndar að miðlun Nova á persónuupplýsingum um manninn til fyrrverandi eiginkonu hans samrýmdust ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Var Nova gert að senda Persónuvernd afrit af starfsreglum sínum um afhendingu símagagna, auk upplýsinga um hvernig fræðslu til starfsmanna um efni verklagsreglnanna væri háttað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.