Sport

„Cool runnings“ ævintýrið að breytast í martröð hjá bobsleðastelpum Jamaíku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jazmine Fenlator-Victorian og Carrie Russell.
Jazmine Fenlator-Victorian og Carrie Russell. Vísir/Getty

Bobsleðastrákarnir frá Jamaíka áttu eftirminnilega innkomu á vetrarólympíuleikunum í Calgary fyrir þrjátíu árum og á Ólympíuleikunum í Pyeongchang ætluðu boðsleðastelpurnar frá Jamaíka að sýna sig og sanna.

Þátttaka þeirra er nú í mikilli óvissu af því að þjálfarinn þeirra hætti. Það sem er kannski alvarlegra er að þjálfarinn á sleðann sem stelpurnar ætluðu að keppa á. Þær eru því sleðalausar.

Stelpurnar geta kannski keppt þjálfaralausar en án sleðans fara þær nú ekki niður brautina.Þjálfarinn heitir Sandra Kiriasis en hún er þýsk og vann Ólympíugull á leikunum í Torinó 2006.

Sandra sætti sig við það ekki þegar það átti að færa hana til í starfi en með því hefði hún misst aðgengi að bobsleðastelpunum og þurft að vera aðeins í frammistöðumati.
Bobsleðasamband Jamaíka sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fólk þar á bæ lýsti yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Söndru Kiriasis að hætta en um leið var henni þakkað góð störf og fyrir það að koma stelpunum inn á Ólympíuleikanna.
Stelpurnar sem ætla að keppa fyrir Jamaíka á tveggja manna boblsleða eru þær Jazmine Fenlator-Victorian og Carrie Russell en með því yrðu þær fyrstu konurnar frá Jamaíka til að keppa á bobsleðum á Ólympíuleikum.

Stelpurnar byrja formlegar æfingar á brautinni í Pyeongchang á laugardaginn og hafa því örfáa daga til að redda sér nýjum sleða.

Ævintýri jamaísku strákanna í Calgary 1988 varð að sérkafla í Ólympíusögunni eftir að gamanmyndin „Cool runnings“ var gerð um það. Myndin sló í gegn enda mikil skemmtun.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.