Innlent

Gagnsæi gæti dregið úr freistnivanda þingmanna

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Jón Ólafsson, prófessor og formaður Gagnsæis - Samtaka gegn spillingu, segir það sjálfsagt mál að upplýsingar um kjör þingmanna séu upplýst.
Jón Ólafsson, prófessor og formaður Gagnsæis - Samtaka gegn spillingu, segir það sjálfsagt mál að upplýsingar um kjör þingmanna séu upplýst.

„Þetta er algjörlega bráðnauðsynleg breyting á reglum þingsins,“ Segir Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki og formaður Gagnsæis - Samtaka gegn spillingu. „Það er engin ástæða fyrir því að greiðslum af þessu tagi sé haldið leyndu fyrir almenningi.“

Í gær tilkynnti Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, að til skoðunar hefur verið á undanförnum mánuðum, og rætt í forsætisnefnd Alþingis, að auka upplýsingagjöf um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna þannig að aðgangur að þeim verði öllum auðveldur og þær birtar á vef þingsins. Markmiðið sé að engin leynd sé yfir neinu sem varðar almenn kjör og greiðslur til þingmanna og fullkomið gagnsæi ríki.

Sjá: „Markmiðið er að ekki sé leynd yfir neinu“

„Það sem við höfum kannski séð betur og betur á síðustu mánuðum og árum er að gagnsæi um þessa hluti hefur áhrif á hegðun,“ segir Jón.

„Tilfellið er að jafnvel þó að við séum ekki beinlínis að saka fólk um einhverskonar siðleysi að þá er það ósköp fyrirsjáanleg afleiðing af leynd að fólk stendur frammi fyrir ákveðnum freistnivanda. Það er meiri freisting fyrir fólk að nýta sér allskonar leiðir til að fá greiðslur ef það getur gengið að því vísu að það kemur aldrei fyrir sjónir almennings.“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, boðar að upplýsingar um starfskostnaðargreiðslur verði birtar á vef Alþingis. Vísir/Valli

Hingað til hafa starfskostnaðargreiðslur þingmanna ekki verið birtar opinberlega þar til forseti þingsins upplýsti í svari við fyrirspurn um tíu hæstu upphæðirnar sem endurgreiddar hafa verið þingmönnum vegna aksturs. Þær upplýsingar voru þó ekki persónurekjanlegar en fjölmiðlar hafa oft kallað á eftir upplýsingum af þessum toga.

„Þessi tilhneiging hér á landi er svo furðurleg,“ segir Jón. „Maður hefur séð hvernig fyrirspurnum fjölmiðla hefur verið mætt af vandlætingu meðal sumra þingmanna. Talað hefur verið um það að það sé óeðlilegt að óska eftir upplýsingum af þessu tagi.“

Hann segir að margir taki því sem svo að óskir fjölmiðla um upplýsingar séu árásir á opinberar persónur.

„Þessu er oft tekið eins og það sé verið að ráðast á persónur, snuðra og þar fram eftir götum. Maður getur vonað að það viðhorf fari nú kannski að breytast og fólk fari að taka því sem eðlilegum hlut að fjölmiðlar reyni eftir bestu getu að fá og veita sem flestar upplýsingar,“ segir Jón.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.