Real kláraði PSG á lokasprettinum │ Sjáðu mörkin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Cristiano Ronaldo tryggði Real Madrid sigur á Paris Saint-Germain í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Adrien Rabiot kom gestunum í PSG yfir eftir hálftíma leik með marki úr miðjum teignum eftir undirbúning Kylian Mbappe og Neymar. Ronaldo jafnaði undir lok fyrri hálfleiks með marki úr vítaspyrnu eftir brot Lo Celso á Toni Kroos.

Mikið var um færi í seinni hálfleiknum en hvorugu liði tókst að brjóta ísinn og komast yfir fyrr en Portúgalinn sendi fyrirgjöf varamannsins Marco Asensio í netið með hnénu á 83. mínútu. Aðeins þremur mínútum seinna var Asensio aftur á ferðinni en í þetta skiptið fann hann bakvörðinn Marcelo sem tvöfaldaði forystu Real.

Eftir að hafa verið aðeins að narta í hælana á PSG í seinni hálfleiknum stigu leikmenn Real Madrid upp og náðu sér í gott forskot fyrir seinni leikinn í París. Þetta einvígi er þó síður en svo búið og PSG sýndi það í leiknum að þeir geta vel staðið í Evrópumeisturunum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.