Erlent

Lena Dunham fór í legnám vegna legslímuflakks

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lena Dunham segir að það hafi verið erfið ákvörðun að fara í legnám.
Lena Dunham segir að það hafi verið erfið ákvörðun að fara í legnám. Vísir/AFP
Leikkonan, leikstjórinn og handritshöfundurinn Lena Dunham fór í legnám nýlega vegna endómetríósu eða legslímuflakks.

 

Sjúkdómurinn orsakast af því að frumur úr innra legi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu en endómetríósa er krónískur sjúkdómur sem talið er að 10 prósent stúlkna og kvenna þjáist af. Hann getur valdið konum gríðarlegum sársauka.

Dunham greindi frá aðgerðinni í ritgerð sem hún birti í Vogue en fjallað er um málið á vef Guardian. Voru bæði legið og leghálsinn fjarlægð. Með aðgerðinni vonast Dunham til að binda enda á krónískan sársauka sem hún hefur þjáðst af árum saman en vegna sjúkdómsins hefur hún farið í fjölda flókinna aðgerða.

Dunham segir að ákvörðunin hafi verið erfið vegna þess að hana langi til að eignast börn en eftir legnámið er hún jákvæðari fyrir framtíðinni og vonandi laus við sjúkdóminn sem læknavísindin vita lítið um.

„Mér fannst ég hafa neitt val áður en nú veit ég að ég hef valkosti. Bráðum mun ég kanna hvort eggjastokkarnir mínir [...] hafi egg,“ skrifar Dunham og segir jafnframt að hún geti hugsað sér að ættleiða.

Talið er að um 175 milljónir kvenna í heiminum þjáist af endómetríósu. Læknar greina ekki alltaf sjúkdóminn heldur telja að um túrverki sé að ræða. Ef konur fá svo rétta sjúkdómsgreiningu getur verið erfitt að finna rétta meðferð við sjúkdómnum þar sem lítið er vitað um endómetríósu, eins og áður sagði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×