Körfubolti

Stórtap í Svartfjallalandi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr fyrri leik liðanna í Laugardalshöllinni í vetur
Úr fyrri leik liðanna í Laugardalshöllinni í vetur vísir/andri marinó

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta tapaði fyrir Svartfjallalandi ytra í kvöld í undankeppni Eurobasket kvenna 2019.

Íslensku stelpurnar stóðu vel í heimakonum framan af í leik þar sem lítið var skorað fyrstu mínúturnar. Staðan var 12-14 fyrir Íslandi eftir fyrsta leikhlutann og skoraði Helena Sverrisdóttir 11 af stigum Íslands í fjórðungnum.

Svartfellingar náðu að vinna annan leikhluta og fóru með fjögurra stiga forystu í hálfleikinn. Það var hins vegar algjört hrun hjá íslenska liðinu í þriðja leikhluta þar sem liðið skoraði aðeins þrjú stig, öll frá Helenu Sverrisdóttur á línunni. Á meðan skoruðu Svartfellingar 19 stig og var staðan orðin 54-34 í lok leikhlutans.

Íslensku stigin í fjórða leikhluta voru einnig bara 3 á móti 15 stigum Svartfjallalands og lauk leiknum með 69-37 sigri.

Helena Sverrisdóttir var lang atkvæðamest í íslenska liðinu með 22 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Næst stigahæst var Elín Sóley Hrafnkelsdóttir með 8 stig. Dýrfinna Arnardóttir, Berglind Gunnarsdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir skoruðu allar eina körfu hver en fleiri leikmenn náðu ekki að skora fyrir Ísland.

Ísland hefur nú tapað öllum fjórum leikjum sínum í A riðli undankeppninnar. Næsti leikur liðsins er gegn Slóvakíu í Laugardalshöll í nóvember.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.