Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Þór Ak. 85-69 | Þórsarar svo gott sem fallnir

Árni Jóhannsson skrifar
Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR.
Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR. vísir/ernir
ÍR-ingar styrktu stöðu sína í baráttunni um sæti í topp fjórum Dominos deildarinnar með því að leggja Þór Ak. að velli í Breiðholtinu í kvöld. Fyrri hálfleikur var í járnum allan tímann en Þór Ak. byrjaði mun betur og komst átta stigum yfir eftir lítinn leiktíma. ÍR-ingar klóruðu í bakkann, komust örlítið yfir en náðu ekki að slíta sig frá Þórsurum sem spiluðu fínan varnarleik eins og heimamenn. Sóknir beggja liða voru mjög stífar á köflum í fyrri hálfleik en það gerði það að verkum að spenna var í leiknum þegar liðin gengu til búningsherbergja í stöðunni 37-33

Í seinni hálfleik var sagan allt önnur. ÍR-ingar komu mun ákveðnari til leiks, lokuðu á aðgerðir gestanna og sölluðu niður körfum í sókninni. Fjögurra stiga forysta var fljót að breytast í 20 stiga forystu og á tímabili fór allt ofan í hjá ÍR en gestirnir gátu ekki keypt sér körfu. ÍR-ingar sigldu stigunum tveim heim síðan í fjórða leikhluta án þess að Þór Ak. gerði sig líklega til stórvirkja. Lokatölur 85-69.



Afhverju vann ÍR?

ÍR er með betra lið en Þór Ak. og á heimavelli hafa þeir verið illviðráðanlegir. Það sést alveg að skörð eru hoggin í liðið þegar Matthías Orra vantar en það er fín dýpt í liðinu og þegar þeir ná vopnum sínum þá eru þeir líklegir til afreka. ÍR-ingar fengu framlag frá mörgum mönnum ásamt því að hittni gestanna var ekkert til að hrópa húrra yfir og hjálpaði þeim ekkert.

Þessir stóður upp úr?

Hjá heimamönnum voru það Ryan Taylor og Sæþór Elmar Kristjánsson sem drógu vagninn í kvöld. Taylor skilaði tröllatvennu með 19 stigum og 15 fráköstum ásamt að finna sína menn með sjö stoðsendingum á meðan Sæþór skilaði í hús 17 stigum og fimm vörðum skotum. Ansi hreint fínn leikur hjá þessum unga herramanni sem varði skot eða skoraði körfu þegar heimamenn vantaði.

Hjá gestunum var það Nino D´Angelo Johnson sem stóð upp úr með 20 stig, 10 fráköst og fjórar stoðsendingar en hann lenti alltof oft í því að reyna allt sjálfur í sóknarleiknum en á löngum köflum vantaði hann hjálp.



Tölfræði sem vakti athygli?

Fimm leikmenn ÍR skoruðu 10 stig eða meira. Það hlýtur að vera gífurlega þægilegt þegar aðalleikstjórnandi liðsins er á meiðslalistanum og aðrir lykilmenn tæpir að geta treyst á dýpt hópsins í leikjum sem eru eins mikilvægir og þessi var í kvöld.



Hvað gerist næst?


ÍR-ingar fara í Grindavík næst og halda áfram að tryggja sess sinn meða fjögurra efstu liðanna. Þeir verða þó að átta sig á því að stigin eru ekki auðsótt í Grindavík. Rétt eins og fiskurinn úr sjónum.

Þórsarar taka á móti Val fyrir norðan í fallbaráttuslag sem jafnvel skiptir ekki máli þar sem Valur stendur mikið betur að vígi í innbyrðisviðureign liðanna og eru átta stigum á undan.

ÍR-Þór Ak. 85-69 (16-17, 21-16, 24-16, 24-20)

ÍR:
Ryan Taylor 19/15 fráköst/7 stoðsendingar, Sæþór Elmar Kristjánsson 17/4 fráköst/5 varin skot, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 12/4 fráköst, Kristinn Marinósson 12/5 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 10/5 fráköst, Danero Thomas 9/6 fráköst, Trausti Eiríksson 4, Einar Gísli Gíslason 2.

Þór Ak.: Nino D'Angelo Johnson 20/10 fráköst/3 varin skot, Hilmar Smári Henningsson 14/5 fráköst/6 stoðsendingar, Bjarni Rúnar Lárusson 14, Ingvi Rafn Ingvarsson 11/6 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 4, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 3, Sindri Davíðsson 3.

Borche Ilievski: Mjög mikilvægur sigur

Þjálfari ÍR var að vonum ánægður með sigur sinna manna og talaði mikið um hvað sigurinn hafi verið mikilvægur í ljósi þess að ÍR hafi tapað tveimur heimaleikjum í röð. Hann sagði að það hafi verið mjög mikilvægt að vinna þennan leik til að fá trú í hópinn á því og að efla trúna aftur á heimavellinum en skarð hafði verið hoggið í þá trú.

Borce var virkilega ánægður með framlag allra leikmanna sinna en það vantar að sjálfsögðu Matthías Orra Sigurðsson í leikmannahópinn ásamt því að Danero Thomas spilar nánast á annarri löppinni en fer í rannsóknir á næstunni. Borce sá í leiknum í kvöld hversu djúpan hóp hann hefur en í kvöld skiluðu menn framlagi sem spila með unglingaflokki enn þá sem og að leikmaður úr drengjaflokki hafi fengið mínútur.



Hjalti Þór Viljálmsson: Reynum að hafa gaman að seinustu leikjunum

Hjalti var sammála blaðamanni þegar hann spurði hann hvort að Þórsarar hafi ekki dálítið kastað leiknum frá sér eftir fínan fyrri hálfleik. Hann sagði að hittni þeirra hafi verið afleit mestallan leikinn fyrir utan fyrstu mínúturnar og það hafi talið þegar fór á að reyna í seinni hálfleik þegar ÍR sigldi framúr.

Varðandi stöðuna í deildinni sagði Hjalti að hans menn myndu bara reyna að hafa gaman að seinustu leikjum deildarinnar því brekkan væri orðin ansi brött fyrir þá þar sem Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og unnu Þór Þ. í kvöld. Hann talaði um að leikirnir yrðu nýttir til að bæta leik sinna manna og ef að þeir myndu ná að bæta hittni sína þá yrðu þeir í fínum málum þannig lagað þó að staðan í deildinni væri ekki góð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira