Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnast um 19,8 milljarða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þá var arðsemi eiginfjár Landsbankans 8,2 prósent árið 2017 en 6,6 prósent 2016.
Þá var arðsemi eiginfjár Landsbankans 8,2 prósent árið 2017 en 6,6 prósent 2016. Vísr/Andri Marínó
Landsbankinn hagnaðist um 19,8 milljarða króna eftir skatta á árinu 2017 samanborið við 16,6 milljarða árið 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum en ársskýrsla Landsbankans er aðgengileg hér.

Þá var arðsemi eiginfjár Landsbankans 8,2 prósent árið 2017 en 6,6 prósent 2016. Hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 1,6 milljarða króna milli ára og námu 36,3 milljörðum króna árið 2017.

Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 8% á milli ára og námu 8,4 milljörðum króna en í tilkynningu segir að tekjuaukningin sé einkum vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu.

Aðrar rekstrartekjur námu 7 milljörðum króna og hækkuðu um 7% á milli ára. „Skýrist hækkunin einkum af jákvæðum gangvirðisbreytingum óskráðra hlutabréfa,“ segir í tilkynningu. Jákvæð virðisbreyting útlána nam 1,8 milljarði króna samanborið við neikvæða virðisbreytingu upp á 318 milljónir króna árið 2016.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2017 var 29,7 milljarðar króna samanborið við 25,2 milljarða króna árið 2016. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 10,6 milljarðar króna árið 2017 samanborið við 9,2 milljarða króna árið 2016.

Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka

Heildareignir Landsbankans jukust um 81,7 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2017 alls 1.193 milljörðum króna. Útlán jukust um 8,5% milli ára, eða um 72 milljarða króna. Aukningin skiptist jafnt á milli lána til fyrirtækja og íbúðalána til einstaklinga. Vanskilahlutfall útlána heldur áfram að lækka en það var 0,9% í lok árs 2017, samanborið við 1,5% í lok árs 2016.

Í árslok 2017 voru innlán frá viðskiptavinum 605 milljarðar króna, samanborið við 590 milljarða króna í árslok 2016.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.Fréttablaðið/Eyþór
Eigið fé Landsbankans í árslok 2017 var 246,1 milljarður króna samanborið við 251,2 milljarða króna í árslok 2016. Á árinu 2017 greiddi Landsbankinn 24,8 milljarða króna í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2017 var 26,7%, samanborið við 30,2% í árslok 2016. Fjármálaeftirlitið gerir 21,4% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.

Greiði arð til hluthafa sem nemur 0,65 krónum á hlut

Bankaráð mun leggja til við aðalfund þann 21. mars 2018 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2017 sem nemur 0,65 krónum á hlut, eða samtals 15,4 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur um 78% af hagnaði ársins 2017.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segist ánægð með rekstur bankans á liðnu ári.

„Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2017 og afkoma bankans var í samræmi við væntingar. Markaðshlutdeild jókst og hefur aldrei mælst hærri á einstaklingsmarkaði, kannanir sýndu aukið traust til bankans og meiri ánægju viðskiptavina með þjónustuna,” segir Lilja í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×