Erlent

Tvíburabræður handteknir í New York vegna gruns um sprengjuframleiðslu

Atli Ísleifsson skrifar
Bræðurnir neita sök í málinu. Myndin tengst málinu ekki beint.
Bræðurnir neita sök í málinu. Myndin tengst málinu ekki beint. Vísir/Getty
Fyrrverandi kennari og tvíburabróðir hans voru handteknir í New York í gær vegna gruns um sprengjuframleiðslu. Rannsókn lögreglu á málinu hófst í desember eftir að sprengjuhótun barst skóla á Manhattan.

New York Times greinir frá því að mennirnir hafi verið handteknir af fulltrúum alríkislögreglunnar. Bræðurnir, sem eru 27 ára gamlir, voru handteknir í borgarhlutanum Bronx og fundust ýmis efni og tól til sprengjugerðar á sameiginlegu heimili þeirra bræðra.

Að sögn saksóknara höfðu að minnsta kosti tveir nemendur úr skóla í Harlem heimsótt mennina á heimili þeirra. Höfðu nemendurnir fengið greitt tímakaup fyrir að taka flugeldasprengjur í sundur og safna saman sprengiduftinu.

Hótaði að sprengja skólann

Bræðurnir neita sök í málinu, en þeir hafa ekki komið áður við sögu lögreglu. Þeir gætu átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Rannsókn alríkislögreglu hófst í desember á síðasta ári þegar annar bræðranna lét af störfum í skólanum í Harlem. Nemandi hafði þá verið handtekinn eftir að hafa hótað að sprengja skólann í loft upp. Þegar bróðir kennarans fyrrverandi skilaði fartölvu bróður síns aftur til skólans tók starfsfólk eftir að á henni fundust leiðbeiningar um sprengjuframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×