Enski boltinn

Sextán ára piltur sem lærir í rútunni spilar gegn Tottenham í dag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik Rochdale við Millwall í síðustu umferð.
Úr leik Rochdale við Millwall í síðustu umferð. vísir/afp
Daniel Adshead, sextán ára gamall miðjumaður Rochdale, verður væntanlega í byrjunarliði liðsins þegar liðið mætir Tottenham síðar í dag.

Daniel er fæddur 2001 og var í september mánuði yngsti leikmaðurinn í enska boltanum þegar hann spilaði gegn Bury, einungis 16 ára og 17 daga gamall.

Pilturinn hefur verið orðaður við Arsenal og Chelsea, en þetta er einungis í þriðja skiptið í sögunni sem Rochdale kemst svona langt í enska bikarnum.

„Þú þarft ekki að vera eldflaugnasérfræðingur til að vita að Dan á framtíð fyrir sér í boltanum,” sagði Keith Hill, þjálfari Rochdale, aðspurður um piltinn.

„Fólk gleymir að hann er einungis sextán ára gamall. Hann er að taka miklum framförum miðað við að hann er enn í skóla.”

„Þegar við ferðuðumst til Millwall í síðustu umferð, þá var hann að læra heimavinnuna í rútunni. Það eru fullt af hákörlum í fótboltaheiminum, en ég sé um Dan eins og að hann sé einn af börnunum mínum.”

Rochdale spilar gegn Tottenham á heimavelli í dag, en flautað verður til leiks klukkan 16.00. Leikurinn er að sjálfsögðu í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×