Erlent

Kínverjar æfir vegna leirþumals

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá einn hinna þúsunda leirhermanna Kínakeisara.
Hér má sjá einn hinna þúsunda leirhermanna Kínakeisara. Vísir/AFP
Kínversk stjórnvöld hafa kallað eftir því að maður sem sakaður er um að hafa stolið þumli hljóti „þunga refsingu.“ Þumallinn tilheyrði kínverskum leirhermanni sem var til sýnis á safni í Philadelphiu í Bandaríkjunum. Styttan er rúmlega 2000 ára gömul og metin á rúmlega 450 milljónir íslenskra króna.

Karlmaðurinn var í liðinni viku ákærður fyrir listaverkaþjófnað en gengur laus eftir að hafa greitt tryggingu. Hann er sagður hafa laumast inn í rýmið þar sem styttan var til sýnis í miðju teiti sem haldið var á listasafninu í desember síðastliðnum. Því næst tók hann sjálfsmynd af sér og styttunni áður en hann sést, í upptökum úr öryggismyndavél, brjóta eitthvað af styttunni og stinga því í vasann. Því næst hljóp hann á brott.

Nokkrum dögum síðar tóku starfsmenn safnsins þá eftir því að þumalinn vantaði á styttuna. Alríkislögreglan hafði að lokum hendur í hári mannsins sem viðurkenndi að hafa geymt þumalinn í skrifborðsskúffunni sinni.

Kínversk stjórnvöld segjast ætla að senda tvo sérfræðinga til Philadelphiu til að meta tjónið. Haft er eftir talsmanni stjórnvalda á vef breska ríkisútvarpsins að farið verði fram á himinháar skaðabætur.

Styttan er hluti af hinum svokalla Leirher fyrsta Kínakeisarans. Leirherinn samanstendur af um 9000 styttum sem fundust fyrir tilviljun árið 1974. Fundurinn er almennt talinn einn sá stærsti sinnar tegundar og er Leirherinn meðal annars á heimsminjaskrá UNESCO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×