Innlent

Þúsundir hjálpa Melkorku að leita að týndum giftingarhring

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hringur Melkorku er svipaður og hringarnir á þessari mynd.
Hringur Melkorku er svipaður og hringarnir á þessari mynd. Twitter/Melkorka Óskarsdóttir
Leikkonan Melkorka Óskarsdóttir týndi giftingarhringnum sínum á Valentínusardaginn og lætur reyna á mátt samfélagsmiðla í leit sinni. Hringurinn er einstakur og ætti því að vera auðþekkjanlegur. Hann er með dagsetningu innan í og skreyttur með rúnum, svipaður og hringurinn á myndinni hér að ofan.

„Ég veit að þetta er bara hlutur en hann skiptir mig öllu máli,“ skrifar Melkorka í auglýsinguna sína. Hringurinn hefur skiljanlega mikið tilfinningalegt gildi. Melkorka hefur birt færslur á ensku á bæði Twitter og á Facebook í þeirri von að fólk dreifi auglýsingunni áfram.

Hringnum týndi Melkorka í London þar sem hún er búsett með eiginmanni sínum Adam Slynn. Hringurinn týndist annaðhvort í Hammersmith hverfinu eða í strætisvagni númer 267. Hringarnir voru gerðir hjá Jóni & Óskari og táknin á þeim eru nöfn brúðhjónanna, skrifuð í höfðaletri.

Á Twitter hafa margir reynt að hughreysta Melkorku með sögum af týndum skartgripum sem fundust aftur nokkrum mánuðum eða jafnvel árum seinna. Fjöldi fólks hefur gefið henni góð ráð og boðist til að leita fyrir hana. Meira en 10 þúsund einstaklingar hafa dreift tísti Melkorku í þeirri von að hún fái hringinn sinn aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×