Lífið

Harrington lét loks af því verða að kaupa JS úr

Samúel Karl Ólason skrifar
Kit Harrington og Gilbert.
Kit Harrington og Gilbert.
Leikarinn Kit Harrington kom við hjá Gilberti Guðjónssyni, úrsmiði, í JS Watch Co. á dögunum og keypti sér úr. Þar gengur Harrington í hóp víðfrægra Íslandsvina sem hafa keypt úr af Gilberti. Þar má meðal annars nefna Tom Cruise, Viggo Mortensen, Ben Stiller, Yoko Ono, Elvis Costello, Tobey Maguire og Quentin Tarantino.

Í samtali við Vísi segir Gilbert að Harrington, sem hefur komið títt til Íslands við tökur Game of Thrones, hafi sagst hafa fylgst með versluninni í fjögur ár og hafi alltaf ætlað að koma við og kaupa sér úr. Hann lét svo verða að því í síðustu viku og ekki seinna en vænna því þetta er væntanlega í síðasta sinn sem tökur fyrir Game of Thrones fara fram hér á landi.

Gilbert segist kominn með tuttugu myndir af frægu fólki sem hafi keypt úr af honum á vegginn hjá sér en þó vanti einhverjar.

Harrington er hvað þekktastur fyrir að leika Jon Snow í hinum gífurlega vinsælu þáttum Game of Thrones. Hann var hér á landi í síðustu viku við tökur fyrir áttundu þáttaröð sem sýna á á næsta ári.

Tökunum er nú lokið og fóru þær, samkvæmt heimildum Vísis, fram á Suðausturlandi í grennd við Vík í Mýrdal. Tökurnar voru ekki stórar í sniðum og tóku einungis nokkra daga.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×