Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Stjarnan 75-88 | Reynslan hafði betur á Akureyri

Jón Ágúst Eyjólfsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Vísir/Stefán
Stjörnumenn sóttu sigur í greipar Þórsara frá Akureyri norðan heiða í kvöld. Stjörnumenn höfðu yfirhöndina allan leikinn en Þórsarar áttu nokkrar rispur sem hleyptu lífi í leikinn og hefði sigurinn hæglega geta dottið með heimamönnum.

Fór þó svo að Stjarnan hafði betur og enduðu leikar 88-75 fyrir Stjörnuna.

Fyrri hálfleikur var eign Stjörnumanna frá upphafi til enda. Þeir leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 20-13. Í öðrum leikhluta var það sama upp á teningnum og leit varnarleikur heimamanna afar illa út á löngum köflum og virtust gestirnir  alltaf finna leið í gegn um svæðisvörn Þórsara. Staðan að loknum fyrri hálfleik 46-32, gestunum í vil.

Það var hins vegar allt annað Þórslið sem mætti til leiks í síðari hálfleik og unnu Þórsarar leikhlutann með sjö stigum og að honum loknum var staðan 62-55. Þegar fimm mínútur lifðu leiks leiddu Stjörnumenn með 12 stigum og leit allt út  fyrir að leik væri lokið en þá tóku Þórsarar við sér og minnkuðu muninn niður í sex stig. Á lokamínútum leiksins var mikið um mistök af hálfu leikmanna en reynslumikið lið Stjörnunnar jók forskotið og landaði sigrinum.

Af hverju vann Stjarnan?

Fyrir utan þá staðreynd að Stjörnumenn eru með betur mannað lið en Þór þá unnu þeir leikinn á reynslunni. Hlynur Bæringsson steig upp á lokakaflanum og varði þrjú skot undir körfunni sem annars voru á leiðinni ofan í fyrir heimamenn.

Einnig verður að minnast á góða þriggja stiga nýtingu gestanna í fyrri hálfleik gegn slakri svæðisvörn heimamanna en Stjörnumenn skoruðu 21 stig í fyrri hálfleik fyrir utan þriggja stiga línuna.

Þessir stóðu upp úr

Tómas Þórður Hilmarsson var ansi drjúgur fyrir gestina og skilaði tvöfaldri tvennu með 21 stig og 11 fráköst. Auk þess var hann hæstur allra í framlagi með 27 framlagspunkta. Eins og áður sagði steig Hlynur Bæringsson vel upp í lok leiks  og þá sérstaklega spilaði hann vel í vörn.

Hjá heimamönnum var Ingvi Rafn Ingvarsson stigahæstur með 19 stig, auk þess að gefa 5 stoðsendingar. Framlagshæsti leikmaður Þórsara var hins vegar baráttujaxlinn Bjarni Rúnar Lárusson með 18 framlagspunkta. Hann skilaði 12 stigum með  71% skotnýtingu, þar af setti hann niður tvo þrista í þremur tilraunum.

Hvað gekk illa?

Bæði lið áttu erfitt með að halda boltanum innan síns liðs á löngum köflum og köstuðu liðin boltanum ansi oft frá sér. Þórsarar voru með 19 tapaða bolta og Stjörnumenn 21.

Hvað gerist næst?

Þórsarar fara í Breiðholtið og mæta þar ÍR-ingum sem hafa tapað tveimur síðustu heimaleikjum sínum. Það verður ansi erfiður leikur fyrir Þórsara sem þurfa að minnsta kosti tvo sigra í þeim fjórum leikjum sem eftir eru ef þeir ætla að  leika á meðal þeirra bestu næsta haust.

Stjörnumenn fá Grindvíkinga í heimsókn sem hafa tapað síðustu tveimur leikjum. Þessi lið eru bæði um miðja deild og getur þessi leikur því haft eitthvað um það að segja hvar liðin enda í töflunni og því má segja að um fjögurra stiga leik  sé að ræða fyrir bæði lið.

Hrafn: Menn stigu upp þegar á reyndi

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ánægður með sigur sinna manna á Akureyri í kvöld en segir jafnframt að margt megi betur fara. Hans menn köstuðu boltanum þó nokkrum sinnum klaufalega frá sér og segir hann að  Stjörnumenn hafi einfaldlega ekki verið nógu ákveðnir.

Hrafn var þó sáttur með viðbrögð leikmanna þegar líða tók á leikinn og heimamenn gerðu atlögu að forystu Stjörnumanna. „Þegar þeir komu virkilega nálægt okkur stigu strákar eins og Colin og fleiri upp,“ sagði Hrafn. Hann bætir því svo  við að Hlynur Bæringsson hafi verið öflugur í vörn þegar mest á reyndi.

Varðandi framhaldið telur Hrafn ÍR-inga hafa farið langleiðina með að tryggja sér fjórða sætið í kvöld og því sé það úr myndinni fyrir Stjörnuna.

„Við viljum bara enda eins ofarlega og við mögulega getum og eins nálægt okkar markmiðum og hægt er,“ segir Hrafn og bætir því við að Stjörnumenn hætti ekki að berjast fyrir sínum markmiðum fyrr en að síðustu umferð lokinni.

„Síðan tekur bara við annar fundur og þar eru átta lið með sama markmiðið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira